is Íslenska en English

Lokaverkefni (Meistara)

Háskóli Íslands > Heilbrigðisvísindasvið > Meistaraprófsritgerðir - Heilbrigðisvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/26231

Titill: 
 • Sjálfsát í bris- og brjósta-krabbameinum. Smásjárskoðun á frumum í rækt og vefjasýnum
 • Titill er á ensku Autophagy in cancers of breast and pancreas. A microscopic evaluation of cultured cells and tissue
Námsstig: 
 • Meistara
Höfundur: 
Útdráttur: 
 • Inngangur: Sjálfsát er þróunarsögulega varðveitt ferli í frumum sem eykur svigrúm frumunnar til að takast á við álag, sérstaklega við svelti. Við sjálfsát myndast tvöföld lípíðhimna sem umlykur skemmd frumulíffæri og próteinknippi og myndar sjálfsátsbólu. Hún rennur svo saman við leysibólu og innihaldið meltist. Niðurbrotsafurðir ferlisins, orkuríkar sameindir og byggingarefni, eru síðan losaðar út. Úsnínsýra (ÚS) er lífvirkt efni sem finnst í lífverum sem nefnast fléttur. Vitað er að úsnínsýra afkúplar öndunarkeðju hvatbera í dýrafrumum og vísbendingar eru um áhrif hennar á sjálfsát í krabbameins-frumulínum í rækt. Brjóstakrabbamein er algengasta krabbamein kvenna. Briskrabbamein er með illvígustu krabbameinum manna og eru horfur sjúklinga við greiningu slæmar. Uppistöðuvefur er talinn eiga þátt í meingerð bris- og brjósta-krabbameina sem eru oft rík af trefjakímfrumum. Vísbendingar eru um að trefjakímfrumur í uppistöðuvef (CAF) sjái krabbameinsfrumum fyrir næringarefnum og að þar hafi sjálfsát ákveðið hlutverk.
  Markmið: Í fyrsta lagi að kanna áhrif ÚS á sjálfsát í krabbameinsfrumulínum í rækt. Í öðru lagi að kanna sjálfsát í æxlum brjósta- og bris-krabbameina og mögulega ræsingarferla sem liggja þar að baki. Í þriðja lagi að skoða uppistöðuvef krabbameinsæxla m.t.t. sjálfsáts.
  Efni og aðferðir: Flúrljómunarmótefnalitun fyrir próteini LC3 var gerð á frumulínu brjóstakrabbameins T47D með og án útsetningu fyrir ÚS í 24 t. Myndir voru teknar í lagsjá, frumur taldar sjónrænt og LC3 deplar í frumum taldir með ImageJ. Vefjasneiðar úr æxlum 15 brjósta- og 14 bris-krabbameina voru
  fengin frá Rannsóknastofu í meinafræði, gerð vefjamótefnalitun sem svo var metin sjónrænt. Litað var fyrir lykilþáttum sjálfsáts, LC3 og p62, pAMPK sem stýrir viðbragði við orkuþurrð, HIF-1α sem stýrir viðbragði við súrefnisþurrð, pRaf1, æxlisdrífandi prótein Ras boðleiðar og p53, æxlisbælandi
  stýriprótein frumuhringsins. Meinafræðileg gögn um æxlin voru fengin frá Rannsóknastofu í meinafræði á Landspítala og borin saman við niðurstöður vefjalitana. LC3 litun var metin jákvæð (+) ef >30% frumna höfðu depla í umfrymi. pAMPK umfrymislitun var stiguð frá 0-3 þar sem 0-1 flokkaðist sem neikvæð (-) litun en 2-3 sem (+). P62 umfrymislitun og HIF-1α kjarnalitun var stiguð á sama hátt. Praf1 litun var metin (+) ef litun sást í kjörnum en annars (-). P53 kjarnalitun var stiguð frá 1-5 þar sem 5 táknar enga litun og 1 táknar sterka kjarnalitun í >50% krabbameinsfrumna. 4-5 var flokkað sem (-) litun og 1-3 (+) litun.
  Niðurstöður: Skoðun í lagsjá sýndi að fjöldi LC3 litaðra sjálfsátsbólna 2-faldaðist í T47D eftir útsetningu fyrir ÚS í sbr við leysisviðmið. LC3 litun á vefjasýnum var metin (+) í 5/15 brjósta- og 7/14 briskrabbameinum. Í 9/12 tilfellum, var (+) LC3 litun tengd (+) pAMPK litun. 3 sýni höfðu (-) pAMPK litun en (+) LC3 litun. Í 1 þeirra var HIF-1α litun metin (+) og í 1 þeirra var pRaf1 metið (+). LC3 punktar voru áberandi í trefjakímfrumum aðlægt krabbameinsfrumum (CAF) í 5/15 brjóstakrabbameinum og 7/14 briskrabbameinum. pAMPK var (-) í CAF í 11/12 sýnum með (+) LC3 litun í CAF.
  Ályktanir og umræða: Niðurstöðurnar sýndu m.a. að ÚS hefur þau áhrif á krabbameinsfrumur í rækt að sjálfsátsbólum fjölgar. Magn p62 hélst hins vegar óbreytt sem bendir til að ferlið klárist ekki sem síðar var rakið til áhrifa ÚS á sýringu leysibólna. Sjálfsát var oft virkt í krabbameinsfrumum æxla og fylgni var milli orkuþurrðar og virks sjálfsáts. Sjálfsát var einnig gjarnan virkt í CAF í æxlum en þar var fylgni við
  orkuþurrð hverfandi.

Tengd vefslóð: 
 • http://journals.plos.org/plosone/article/authors?id=10.1371/journal.pone.0051296
Samþykkt: 
 • 13.10.2016
URI: 
 • http://hdl.handle.net/1946/26231


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
Sjálfsát í bris- og brjóstakrabbameinum - smásjárskoðun á frumum í rækt og vefjasýnum.pdf13.44 MBOpinnHeildartextiPDFSkoða/Opna
Már Egilsson.pdf463.89 kBLokaðurYfirlýsingPDF