Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/26250
Eitt höfuðmarkmið lestrarkennslu er að efla lesskilning. Það er jafnframt eitt erfiðasta verkefni skólakerfisins, því það reynir á margþætta hæfni nemenda, ekki aðeins í umskráningu og orðkennslu, heldur einnig þekkingu á orðaforða og skilningi á mæltu máli.
Í lestrarkennslu er upplestur nemenda yfirleitt notaður sem mælikvarði á lesfimi (hraða og nákvæmni) og skilning á textanum (hljómfall og túlkun). Lítið hefur hins vegar verið gert til að þjálfa upplestur markvisst með það í huga að efla lesskilning. Nýlegar rannsóknir benda til þess að þjálfun í upplestri geti notað hið túlkandi hljómfall upplestrarins til að auka skilning og þannig glætt tilfinningu fyrir samfellu og samhengi ritaðs máls.
Í rannsókninni var valinn meðalstór skóli, með 37 nemendum í 4. bekk. Í upphafi var lagt fyrir lesskilningspróf og árganginum skipt í tvennt, íhlutunarhóp og samanburðarhóp. Íhlutunarhópurinn hitti rannsakanda vikulega í tólf vikur, þrír til fimm nemendur í senn, og las hver upphátt í eina mínútu. Rannsakandi leiðbeindi stuttlega um merkingu textans og túlkun, þannig að aðrir hefðu ánægju af að hlusta. Lesefnið var hluti af því lesefni sem árgangurinn las í öðru samhengi og var ekki viðbót við lestrarþjálfun árgangsins nema að því leyti sem nam þessum upplestri.
Að lokinni íhlutun var aftur lagt fyrir lesskilningspróf. Íhlutunarhópurinn stóð sig mun betur á síðara prófinu en einstaklingsmunur var mikill og samhengi við frammistöðu í lestrarstundum með rannsakanda var ekki ótvírætt. Niðurstöður benda eindregið til að markviss þjálfun í túlkandi upplestri hafi jákvæð áhrif á lesskilning. Í framkvæmd rannsóknar kom í ljós að nemendur voru oft illa undir búnir, og ef til vill hefði aukin áhersla á undirbúning skilað meiri árangri.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
Lesskilningur og vandaður upplestur. Njótum þess að lesa..pdf | 2,76 MB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna | |
Yfirlýsing.pdf | 43,76 kB | Lokaður | Yfirlýsing |