Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/26331
Á hverri klukkustund á hverjum degi týna yfir 40 manns lífi vegna drukknana á heimsvísu. Drukknanir eru stórt alþjóðlegt vandamál sem er bæði dýr og mikil byrði fyrir samfélög heimsins.
Í þessu verkefni er fjallað um drukknanir og þá sundfærni sem einstaklingur er talinn þurfa að búa yfir til að geta bjargað sér frá drukknun í erfiðum aðstæðum. Markmið þessarar rannsóknar var að kanna sundfærni barna í 5. bekk í íslenskum grunnskólum með fjölþættu sundprófi. Sundprófið var lagt fyrir 185 nemendur úr fimm grunnskólum víðsvegar um landið.
Rannsóknin var þversniðsrannsókn sem skiptist upp í fimm mælingar; 200 m sund (þar af 50 m á bakinu), að stökkva út í djúpt vatn, flot, velta og stefnubreytingar.
Niðurstöður leiddu í ljós að 82% nemenda í 5. bekk í íslenskum grunnskólum stóðust fjölþætta sundprófið og eru þar með taldir líklegir til að geta bjargað sér frá drukknun í erfiðum aðstæðum. Alls 18% nemenda stóðust hins vegar ekki prófið þar sem þeir náðu ekki einum eða fleiri liðum. Ekki reyndist marktækur munur á tíma í 200 m sundi milli kynja og ekki höfðu ársfjórðungar fæðingardaga heldur áhrif á tíma í 200 m sundi. Marktæk tengsl reyndust vera á milli tíma í 200 m sundi og annars vegar getu til að stökkva út í djúpt vatn og hins vegar hversu oft þátttakandi þurfti að hvílast á 200 m sundi. Fleiri drengir en stúlkur stóðust einstök próf en ekki reyndist tölfræðilega marktækur munur þar á milli.
Niðurstöður þessarar rannsóknar gefa mikilvægar upplýsingar um stöðu á sundfærni barna í 5. bekk í íslenskum grunnskólum í dag. Mikilvægt er að halda áfram með rannsóknir á þessu sviði til að koma í veg fyrir drukknanir í framtíðinni. Þörf er á að hanna alþjóðleg stöðluð sundpróf til að skera úr um hvort einstaklingur sé syndur og þar af leiðandi líklegri til að geta bjargað sér frá drukknun í ákveðnum aðstæðum.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
Að bjarga ser fra drukknun- M.Ed. Sigrun Halldorsdottir - Lokautgafa.pdf | 1.42 MB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna | |
sigrún_yfirlýsing.pdf | 448.23 kB | Lokaður | Yfirlýsing |