Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/26361
Kynntar verða niðurstöður þriggja kannana á þjónustueiningum og mannafla á bóka- og skjalasöfnum. Markmið rannsóknanna er að kanna þróun þjónustueininga og mannafla á bókasöfnum 1989, og á bóka- og skjalasöfnum 2001 og 2014, og möguleg áhrif hennar á framboð náms á þessu sviði. Kannanirnar voru framkvæmdar með hliðsjón af aðferð Moore‘s við framkvæmd slíkra kannana. Árin 1989 og 2001 voru spurningalistar póstsendir, en 2014 sá Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands um framkvæmd rafrænnar könnunar. Kenningarfræðilegur grunnur var Vistfræðileg þróunarkenning Lenski‘s. Samkvæmt henni felur þjóðfélagsþróum annars vegar í sér stöðugleika, og hins vegar tvenns konar breytingar: sífelldar og afturkræfar breytingar sem hafa ekki varanleg áhrif á grunngerð þjóðfélagsins, og byltingarkenndar breytingar sem valda byltingarkenndum og óafturkræfum þjóðfélagsbreytingum. Við greiningu gagna voru tvær kenningar notaðar: kenning Abbott‘s um kerfi fagstétta sem tekur til sífelldra breytinga, og miðilskenning Meyrowitz sem tekur til byltingarkenndra breytinga. Niðurstöður gefa til kynna miklar breytingar á þjónustueiningum og mannafla. Þær eru annars vegar tilkomnar vegna sífelldra breytinga, svo sem breytinga á lögum og annarra afturkræfra þjóðfélagsbreytinga, og hins vegar vegna byltingarkenndra breytinga á tilurð, geymd og miðlun þekkingar og upplýsinga, sem eru tilkomnar vegna óafturkræfrar og byltingakenndrar tækniþróunar. Námsframboð hefur að miklu leyti þróast í samræmi við þessar breytingar.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
FELMAN Stefanía Júlíusdóttir.pdf | 491.78 kB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna |