Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/26364
Á skjalasöfnum er ritaður menningararfur varðveittur og eign skjalasafna byggist á því að þeim séu afhent skjalasöfn til varðveislu. Fjallað er um hluta niðurstaðna rannsóknar á viðhorfi og reynslu fólks af afhendingu einkaskjalasafna á opinber skjalasöfn. Rannsóknin var framkvæmd veturinn 2015-2016. Markmið rannsóknarinnar er að kanna reynslu og viðhorf til afhendingar einkaskjalasafna á opinber skjalasöfn. Í rannsókninni var rætt við aðstandendur sem höfðu afhent skjöl látinna ættingja sinna, svo og skjalamyndara sem sjálfir höfðu afhent eigin gögn til varðveislu. Gagna var aflað með eigindlegum rannsóknaraðferðum þar sem tekin voru hálfopin viðtöl við níu þátttakendur. Viðtölin voru greind með hliðsjón af grundaðri kenningu. Þátttakendur voru valdir kerfisbundið; fjórir skjalamyndarar sem höfðu afhent eigin skjöl, fjórir aðstandendur sem afhent höfðu skjöl látinna ættingja, og einn sérfræðingur á skjalasafni. Helstu niðurstöður voru þær að öllum þátttakendum þóttu persónulegar heimildir hafa mikið varðveislugildi, en einnig að fólk hefði ekki forsendur til þess að meta heimildagildi skjala fyrir framtíðina. Hluti þátttakenda lét í ljós áhyggjur sínar af því að ómetanlegar heimildir töpuðust. Það rímar vel við það sem fræðimaðurinn Barbro Klein hefur fjallað um; að við séum alltaf á elleftu stundu að bjarga menningarverðmætum frá glötun.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
FELMAN_Berglind_Jóhanna.pdf | 607,83 kB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna |