Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/26576
Í þessari ritgerð er sjónum beint að breyttri hegðun Kína gagnvart Norður-Kóreu í kjölfar þriðju kjarnorkutilraunar síðarnefnda landsins árið 2013. Fram að henni höfðu kínversk yfirvöld gagnrýnt kjarnorkuáætlun Norður-Kóreu og kosið með refsiaðgerðum gegn landinu í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna. Gagnrýnin varð þó enn harðari eftir að ný ríkisstjórn Xi Jinping tók við völdum í Kína. Til að skoða mögulegar ástæður fyrir breyttri hegðun ríkisins eru raunhyggjukenningar og félagsleg mótunarhyggja notaðar til greiningar á viðfangsefnið. Bandalag Kína við Norður-Kóreu er rakið frá upphafi til nútímans og komist að þeirri niðurstöðu að samband ríkjanna hafi alla tíð verið ótraust. Í framhaldi af því eru viðbrögð Kína við kjarnorkutilraunum Norður-Kóreu skoðuð með sérstakri áherslu á hin hörðu viðbrögð árið 2013. Nýklassísk raunhyggja dregur upp mynd af Kína sem vill halda í óbreytt ástand en félagsleg mótunarhyggja beinir sjónum að því hvernig Kína hefur færst í átt að viðmiðum og gildum Vesturlanda. Niðurstöður ritgerðarinnar eru þær að ólíklegt sé að Kína slíti formlegu bandalagi sínu við Norður-Kóreu sökum staðsetningar Kóreuskagans. Líklegt er þó að hin breytta hegðun Kína sé komin til með að vera og því má áfram búast við harðri gagnrýni frá kínverskum stjórnvöldum á Norður-Kóreu.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
Ívar BA pdf.pdf | 648.45 kB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna | |
skemman_yfirlysing.pdf | 94.83 kB | Lokaður | Yfirlýsing |