is Íslenska en English

Lokaverkefni (Meistara)

Háskóli Íslands > Hugvísindasvið > Meistaraprófsritgerðir - Hugvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/2659

Titill: 
 • Tvær íslenskar riddarasögur handa framhaldsskólum: Viktors saga og Blávus og Mírmanns saga ásamt inngangi, verkefnum og kennsluleiðbeiningum
Námsstig: 
 • Meistara
Útdráttur: 
 • Ritsmíð sú sem hér birtist er lokaverkefni mitt til M.Paed.- prófs í íslensku við Hugvísindadeild Háskóla Íslands. Fyrir valinu varð að skrifa upp tvær frumsamdar riddarasögur, Viktors sögu og Blávus og Mírmanns sögu, eftir stafréttum útgáfum og leggja drög að útgáfu handa framhaldsskólanemum. Verkefnið er í þremur hlutum. Í fyrsta hluta er almennur inngangur þar sem fjallað er um frumsamdar riddarasögur frá ýmsum hliðum og um útgáfuna. Eðli máls samkvæmt er meira fjallað um Viktors sögu og Blávus og Mírmanns sögu í innganginum en aðrar sögur. Þá er rétt að nefna að inngangurinn er yfirlit sem að mestu byggir á rannsóknum annarra. Í öðrum hluta birtast sögurnar sjálfar ásamt orðskýringum og verkefnum á eftir hverjum kafla. Í þriðja hluta eru kennsluleiðbeiningar þar sem stuttlega er vikið að fyrri les- og skólaútgáfum riddarasagna auk þess sem fjallað er um verkefnin og þær kennslufræðilegu forsendur sem að baki þeim liggja. Aftast er heimildaskrá í fjórum liðum. Í henni eru ekki aðeins nefndar heimildir sem koma við sögu í ritgerðarþætti verkefnisins (inngangi og kennsluleiðbeiningum) heldur einnig heimildir sem nemendum er vísað á í verkefnunum.
  Lengi vel voru frumsamdar riddarasögur og aðrar skemmtibókmenntir frá miðöldum olnbogabörn í íslenskri bókmenntasögu. Í viðræðum mínum við fólk verð ég var við að margir hafa ekki hugmynd um að þessar sögur séu yfirleitt til. Reynsla mín er sú að flestir telji að á miðöldum hafi riddarasögur aðeins verið skrifaðar í útlöndum. Fáfræði um þessar sögur skýrist af því að lengi töldu bókmenntapostular hér á landi þær til óæðri bókmennta. Þetta hafði auðvitað áhrif á viðhorf fólks til sagnanna, þ.á.m. í skólakerfinu. Hin síðari ár hafa þessi viðhorf breyst og í kjölfar nýrra strauma í bókmenntafræðum hafa fræðimenn tekið að endurmeta þessar sögur. Það er löngu tímabært að sams konar endurmat fari fram bæði í grunn- og framhaldsskólum. Þótt frumsamdar riddarasögur þoli ekki samjöfnuð við bestu Íslendingasögur eru þær eftir sem áður hluti af íslenskri bókmenntasögu. Margar þeirra hafa líka annað og meira fram að færa en skemmtun eina saman. Bæði Viktors saga og Blávus og Mírmanns saga eru dæmi um slíkar sögur.
  Að leiðarlokum vil ég þakka leiðbeinanda mínum Ásdísi Egilsdóttur fyrir ánægjulegt samstarf og gagnlegar ábendingar. Föður mínum og málfarsráðunauti Helga E. Helgasyni þakka ég yfirlestur.
  Síðast en ekki síst vil ég þakka sambýliskonu minni Emmu Lindahl fyrir góðar samræður um Mírmanns sögu, aðstoð í tölvumálum og bara fyrir að vera til.

Samþykkt: 
 • 15.5.2009
URI: 
 • http://hdl.handle.net/1946/2659


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
Masterforsida1_fixed.pdf31.4 kBOpinnForsíðaPDFSkoða/Opna
titilsidamaster2_fixed.pdf7.74 kBOpinnTitilsíðaPDFSkoða/Opna
Masterloka4_fixed.pdf1.07 MBOpinnMeginmálPDFSkoða/Opna