Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/26649
Ritgerð þessi sem unnin er til fullnustu BA-prófs í spænsku frá Háskóla Íslands snýr að því að rannsaka hugmyndafræði og sögu sanngjarnra viðskiptahátta. Í upphafi ritgerðarinnar skilgreini ég hugtakið Sanngjörn viðskipti, sem á ensku kallast Fair Trade eða Comercio Justo á spænsku. Markmið ritgerðarinnar er að varpa ljósi á fyrirbærið Sanngjörn viðskipti og áhrif þess á kaffibaunabændur í Níkaragva. Í fyrsta hluta ritgerðinnar er sögulegt samhengi Sanngjarnra viðskipta útskýrt ásamt því að sýna fram á hvers vegna þeir sjálfbæru og réttlátu viðskiptahættir hafa átt auknum vinsældum að fagna á síðustu áratugum. Þar að auki eru sýn og hugmyndafræði Sanngjarnra viðskipta rakin, áhrif þeirra, markmið og áskoranir. Síðan er sjónum beint að Sanngjörnum viðskiptum í kaffiiðnaðinum þar sem litið verður sérstaklega til eftirspurnar á slíkum vörum. Fjallað verður um áhrif sanngirnisvottunar í kaffiiðnaðinum og um kaffikreppuna sem herjaði á framleiðslulönd kaffis á árunum 1999-2004 sem stöfuðu af offramleiðslu á vörunni. Megin viðfangsefni ritgerðinnar felst þannig í því að rannsaka hver ávinningur sanngirnisvottunar sé fyrir smábændur í kaffiiðnaðinum í þessu fátækasta landi Mið-Ameríku. Til að öðlast ítarlegri yfirsýn yfir viðfangsefnið er gerð grein fyrir nýlegum rannsóknum á sanngirnisvottuðum kaffibændum í Níkaragva. Þetta hjálpar okkur að staðreyna áhrif Sanngjarnra viðskipta í kaffiræktun með það að leiðarljósi að skilja betur hvort vottunin verði til þess að bæta lífsskilyrði smábændanna. Til samanburðar eru aðstæður kaffibænda sem selja uppskeru sína í hefðbundnum markaði skoðaðar, og sjónum beint að sömu landsvæðum í norðurhluta Níkaragva. Meginmarkmið ritgerðarinnar er ekki síst að rýna í aðstæður sanngirnisvottaðra kaffibænda með gagnrýnum augum. Í lok ritgerðar eru niðurstöður kynntar og höfundur leggur mat á samfélagslegan ávinning þessara viðskiptahátta þar sem stuðst er við niðurstöður ítarlegra rannsókna fræðimanna sem fjallað hafa um Sanngjörn viðskipti í Níkaragva.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
El Comercio Justo - Hrefna Rut.pdf | 599.79 kB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna | |
yfirlýsing.pdf | 27.47 kB | Lokaður | Yfirlýsing |