Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/26651
Í upphafi kristni á Íslandi voru flestir kirkjugarðar landsins hringlaga. Þegar leið á aldirnar fór hringlaga görðunum fækkandi og æ fleiri urðu ferhyrndir. Þrátt fyrir það hafa margir þeirra varðveist en leifar hringlaga kirkjugarða má sjá á nokkrum stöðum á landinu. Í nær öllum þeim tilvikum sem garðarnir hafa varðveist hafði viðkomandi kirkja lagst niður fyrir þann tíma er ferhyrndir garðar urðu vinsælir.
Í ritgerð þessari er safnað saman upplýsingum um stærð fornra kirkjugarða sem hafa haft hringlaga lögun og reynt að varpa ljósi á hvaða þættir gætu hafa ráðið stærð garðanna. Þegar hringlaga kirkjugarðar eru skoðaðir sést fljótlega að þeir hafa verið misstórir. Í fyrstu gæti manni dottið í hug að stærð garðanna kæmi heim og saman við íbúafjölda á hverjum stað fyrir sig en þar sem manntalsupplýsingar við upphaf kristni á Íslandi eru af skornum skammti væri flókið að athuga það. Stærð kirkju er annar þáttur sem ætti að hafa einhver áhrif á stærð garðsins en þar vaknar upp spurningin hversu stórar kirkjur frá þessum tíma hafa verið? Þá má einnig geta sér til um að dýrleiki jarðarinnar hafi haft áhrif. Í því tilfelli verður að svara spurningum á borð við hvort einhver tenging sé milli jarðardýrleika og stærð garðanna.
Farið var yfir fyrri athuganir á hringlaga kirkjugörðum, bæði á Íslandi og í nágrannalöndum. Þá var upplýsingum um dýrleika safnað ásamt aldursgreiningum garðanna og tegundum kirkna sem þeir tilheyrðu. Jarðadýrleiki virðist ekki hafa skipt máli þegar kom að stærð kirkjugarðanna. Þá var lítil sem engin tenging á milli kirkjutegunda og stærð garðanna sem umluktu þær. Aðrir þættir eins og íbúafjöldi á staðnum þegar garðurinn var í notkun og fjöldi grafa ættu að varpa betra ljósi á mismunandi stærð garðanna. Þessa þætti er flókið að skoða vegna skorts á heimildum og misgóðri varðveislu og voru því ekki athugaðir hér.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
BA_Hringlaga kirkjugarðar.pdf | 8.9 MB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna | |
Yfirlýsing_Vilborg.pdf | 19.55 kB | Lokaður | Yfirlýsing |