Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/26668
Í ritgerðinni er fjallað um réttarhöldin og refsidóma yfir þeim sem ákærðir voru fyrir aðild að óeirðunum á Austurvelli 30. mars 1949, þegar Alþingi samþykkti aðild Íslands að Atlantshafsbandalaginu. Sjónum verður beint að samspili laga og stjórnmála með því að greina tildrög, framkvæmd og niðurstöður dómsmálanna. Efnið verður sett í kenningarlegt samhengi með tilvísun í hugmyndir Otto Kirchheimer um sakadóma og pólitísk réttarhöld. Sýnt er hvernig pólitískir hagsmunir höfðu áhrif á lagaferlið allt frá upphafi þess, 30. mars 1949, þangað til því lauk formlega árið 1957. Í því sambandi verður m.a. vísað til rannsóknargagna sem stuðst var við í dómum aukaréttar árið 1950 og Hæstaréttar árið 1952, en þau hafa að geyma rannsóknarskýrslur lögregluyfirvalda, yfirheyrslur, vitnaleiðslur, myndir frá vettvangi, málsvörn sakborninga og önnur skjöl sem komu til álita fyrir rétti. Einnig verður fjallað um hvernig dómsmálið varð að pólitísku bitbeini, einkum milli sósíalista annars vegar og sjálfstæðismanna hins vegar. Lagt verður mat á laga- og stjórnmálarök þeirra sem stóðu að réttarhöldunum, dómara, lögreglumanna og stjórnmálamanna sem og málsvörn sakborninga sem litu svo á að hér væri um að ræða „stéttadóma“ og „pólitísk réttarhöld“. Þá verður sérstaklega fjallað um eftirfarandi þætti: undirskriftasöfnun sem hleypt var af stokkunum árið 1952, þar sem skorað var á stjórnvöld að náða þá sem dæmdir voru, takmarkaða sakaruppgjöf þeirra í „tilefni fimmtíu ára afmælis heimastjórnar á Íslandi” árið 1954 og framkvæmd fullrar sakaruppgjafar árið 1957. Loks verður fjallað um eftirmál dómsmálanna og áhrif þeirra á líf og störf hinna dæmdu manna.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
Pólitískt réttlæti og andóf. Réttarhöldin vegna óeirðanna 30. mars 1949.pdf | 573.31 kB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna | |
Trúnaðarskjal.pdf | 241.51 kB | Lokaður | Yfirlýsing |