Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/26706
Við steinsteypuframleiðslu á Íslandi er aðallega notast við hreint Portlandsement en það er sement sem inniheldur a.m.k. 95% sementsklinker. Við framleiðslu á einu tonni af sementsklinker losnar um eitt tonn af koltvísýringi út í andrúmsloftið. Ein leið til að minnka umhverfisáhrif steinsteypu sem byggingarefnis er að drýgja sementsklinkerinn með íaukum, svonefndum possolönum (e. Pozzolans), sem eru minna mengandi í framleiðslu. Standard FA sement inniheldur 78% sementsklinker, 18% flugösku og 4% kalk. Flugaska hefur possolanísk áhrif og er aukaafurð sem fellur til við bruna á jarðefnaeldsneyti.
Þegar nota á Standard FA sement, sem og öll önnur sement blönduð íaukum, þarf að hafa allmörg praktísk atriði í huga. Steypur hrærðar með mismunandi sementsgerðum hafa mismunandi eiginleika og geta áhrif íauka bæði verið jákvæð og neikvæð. Munur á eiginleikum steypanna kemur fyrst fram þegar þær eru hrærðar og þeirra gætir allan líftímann.
Í þessu verkefni voru steyptar sex prófsteypur og á þeim gerð samanburðarpróf. Einnig var stuðst við gögn úr gagnasafni BM Vallár. Niðurstöður prófana leiddu í ljós að 28 daga þrýstistyrkur og frostþol er lakara hjá Standard FA en hreinu Portlandsementi. Aftur á móti bætir Standard FA sig hlutfallslega mun meira eftir því sem steypan eldist en það er í takti við það sem fræðin segja. Ein aðalniðurstaða verkefnisins var sú að rétt er að nota nýtnistuðul, eða k-gildi, þegar Standard FA sement er notað. Notkun á honum skilar sér í því að lækka þarf V/S-tölu steypunnar um 17% til að ná fram sömu þrýstistyrks- og frostþolseiginleikum og hreint Portlandsement gefur.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
MS_ritgerð_BirgirPétursson.pdf | 1,96 MB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna | |
L O K A V E R K E F N I.pdf | 109,22 kB | Lokaður | Yfirlýsing |