Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/26724
Öryggi barna er mikilvægt atriði að hafa í huga. Ung börn eru sérstaklega í hættu þar sem þau hafa ekki getu til að meta hættur í umhverfinu og því þarf að hafa sérstaka aðgát með þeim. Slysahættur geta m.a. leynst í verslunum en talið er að allt að 100 börn slasist árlega við það að detta úr innkaupakerrum en þau slys verða einna helst þegar börnum er leyft að vera ofan í kerrunni þar sem vörurnar eiga að vera. Markmið þessarar rannsóknar var að kanna hvort inngrip í formi sýnilegs áreitis gæti dregið úr því að foreldrar leyfðu börnum sínum að vera ofan í innkaupakerrum og þannig minnkað líkur á slysi. Inngrip var sett upp í þremur verslunum á höfuðborgarsvæðinu að loknum grunnskeiðsmælingum. Inngripið var mynd sem fest var í allar innkaupakerrur. Að loknu inngripsskeiði voru aftur gerðar grunnskeiðsmælingar til þess að meta virkni inngripsins. Niðurstöður rannsóknarinnar voru þær að sú markhegðun, að leyfa börnum að vera ofan í innkaupakerrum, minnkaði töluvert á meðan inngrip var til staðar í innkaupakerrum en jókst aftur þegar inngrip var fjarlægt. Það gefur til kynna að sýnilegt áreiti eitt og sér geti gagnast til þess að minnka líkur á slysum í innkaupakerrum.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
Öryggi barna í innkaupakerrum.pdf | 551.83 kB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna | |
Yfirlýsing um meðferð lokaverkefna.pdf | 168.83 kB | Lokaður | Yfirlýsing |