Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/26745
Neytendalán er lán samkvæmt samningi sem lánveitandi gerir í atvinnuskyni við neytanda. Ritgerð þessi fjallar um neytendalán. Neytendalánalög eru mikilvægur þáttur í neytendavernd hér á landi. Árið 2013 voru sett ný lög um neytendalán sem höfðu í för með sér ýmsar breytingar frá því sem áður var, en markmiðið með lögunum var að auka neytendavernd og samræma lagaumhverfi við veitingu neytendalána. Tilgangur ritgerðarinnar var að skoða hvort þessar breytingar hefðu haft einhver áhrif, en heiti ritgerðarinnar er: Ný lög um neytendalán; áhrif breytinganna.
Með tilkomu laganna frá 2013 var útvíkkað gildissvið frá fyrri lögum um neytendalán, upplýsingaskyldan sem lögð er á lánveitendur og lántaka var aukin, hámark var sett á árlega hlutfallstölu kostnaðar, uppgreiðsla lánssamninga var auðvelduð sem og svigrúm til þess að falla frá lánssamningum, þá voru einnig sett inn sérstök ákvæði sem fjalla um lánshæfis- og greiðslumat.
Til þess að ná fram markmiðum ritgerðarinnar var farið yfir sögu neytendalána og tilskipanir sem Evrópubandalagið hefur sett um efnið, en það er nauðsynlegt vegna aðildar Íslands að evrópska efnahagssvæðinu. Sérstakur kafli er um neytendalánalögin frá 2013 þar sem farið er yfir helstu ákvæði laganna og breytingu frá fyrri lögum. Að auki er svo farið yfir álit, úrskurði og dóma sem féllu á grundvelli eldri laga um neytendalán, og svo álit, úrskurði og dóma sem hafa fallið eftir að nýju lögin tóku gildi. Ljóst er að þetta réttarsvið er í mikilli þróun innan Evrópusambandsins og mun landsréttur halda áfram að þróast samhliða því.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
ML lokaútgáfa prenta RagnaLóa.pdf | 952,29 kB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna |