Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/26759
Margt bendir til að utanvegaakstur fari vaxandi, sérstaklega á hálendinu þar sem löggæsla er minni en á láglendinu. Með aukinni umferð á hálendinu eykst hætta á utanvegaakstri.
Friðland að Fjallabaki er einn vinsælasti viðkomustaður bæði innlendra og erlendra ferðamanna á hálendi Íslands. Íslendingar hafa notað svæðið um aldir til beitar og um það liggja leiðir milli byggða á Suðurlandi.
Meginmarkmið þessarar rannsóknar er annars vegar að kortleggja og flokka alla sýnilega slóða á ákveðnu svæði innan Friðlands að Fjallabaki frá loftmyndum. Hins vegar að meta og greina breytingar á umfangi vega- og slóðakerfisins á svæðinu yfir 55 ára tímabil (1958-2013). Reynt verður að svara því hvort utanvegaakstur á hálendinu sé að aukast eða minnka, hvað valdi utanvegaakstri og hvernig hægt sé að lágmarka utanvegaakstur. Vegakerfið var greint út frá loftmyndum og flokkað eftir opinberri stöðu veganna, ásýnd og nýtingu. Flokkunin getur nýst sem innlegg inn í ákvarðanatöku um hvernig hvaða vegi og slóða skuli setja inn í vegaskrá skv. náttúruverndarlögum. Til að meta breytingar í tíma var stuðst við loftmyndir frá 1958, 1979 og 2013.
Niðurstöður sýna að umfang vega á rannsóknarsvæðinu hefur aukist frá 1958-2013 og að hlutur utanvegaaksturs hefur stækkað hlutfallslega meira en hlutur hins opinbera vegakerfis. Utanvegaslóðar fylgja fremur aðalvegum en fjallaslóðum.
Niðurstöður sýna enn fremur að þrátt fyrir að landið hafi verið friðað frá árinu 1979, var utanvegaakstur töluvert umfangsmeiri þar árið 2013, en árið 1979. Vísbendingar eru hins vegar um að eftirlit og friðun skili árangri, og vegum og slóðum hefur verið lokað til að einfalda vegakerfið.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
Utanvegaakstur á hálendi Íslands_Mat og greining loftmynda frá Friðlandi að Fjallabaki.pdf | 8.05 MB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna | |
Yfirlýsing_HL.pdf | 434.21 kB | Lokaður | Yfirlýsing |