Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/26783
Í þessari ritgerð er leitast við að meta áhrif fjármálavæðingar á stöðu Íslands sem fullvalda ríki. Fjallað er um hvort einstakir þættir fullveldisins geti einkennst af sýndarfullveldi. Með sýndarfullveldi er átt við, að hliðar fullveldisins sem snúa að lagalegum, efnahagslegum og pólitískum álitamálum, séu ekki fyllilega virkar, eða að staða þeirra hafi veikst. Skoðað er hvort þessir þræðir fullveldisins virki í reynd, eða hvort þeim sé meðvitað beitt með þeim hætti að tilefni sé til að efast um að fullveldið sé raunverulegt, samkvæmt alþjóðlegum viðmiðum. Fjallað er um fullveldishugtakið, fullveldi Íslands og sjálfstæði, þjóðernishyggju, þjóðarsöguna og sjálfsmynd þjóðar. Einnig er fjallað um aðdraganda og afmarkaða áhrifaþætti efnahagshrunsins 2008; um fjármálavæðingu, hugmyndir um alþjóðlega fjármálamiðstöð, starfshætti Seðlabanka Íslands, áhyggjur af háu gengi íslensku krónunnar og viðhorf til aðkomu og aðstoðar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Ennfremur er fjallað um samskipti og togstreitu meðal helstu ráðamanna í hruninu, sem og andrýmið í samfélaginu á eftirhrunsárunum. Niðurstöður verkefnisins eru þær, að einstakir þættir er varða stöðu Íslands sem fullvalda ríki, einkennast af sýndarfullveldi. Þessi þróun skýrist m.a. af auknu vægi hnattvæðingar og fjármálavæðingar þvert á landamæri, en einnig af þátttöku Íslands í alþjóðasamstarfi. Ein hlið fullveldisins, efnahagslegt sjálfstæði ríkisins, veiktist í hruninu og færðist tímabundið yfir til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Staðan styrktist ekki aftur fyrr en með brotthvarfi sjóðsins, þremur árum síðar. Lítil ástæða er til að efast um þá formlegu hlið fullveldisins, er snýr að samstarfi á alþjóðavísu, enda Ísland aðili að alþjóðastofnunum og þátttakandi í margvíslegu ríkjasamstarfi þar sem þjóðríki framselja hluta fullveldis í þágu samvinnu á alþjóðavettvangi.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
Syndarfullveldi_Sigurdur_Kaiser.pdf | 1,05 MB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna | |
Yfirlysing_SigurdurKaiser.pdf | 142,93 kB | Lokaður | Fylgiskjöl |