Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/26808
Tilgangur þessarar ritgerðar er að kanna hvers konar fyrirtæki á Íslandi geta leyft sér að notast eingöngu við myndmerki sem tákn sitt og sleppt nafni sínu í firmamerkinu án þess að hafi áhrif á neytendavitund. Firmamerki er helsta tákn fyrirtækja út á við til sinna neytenda, því er það þeim gríðarlega mikilvægt að neytendur þekki þeirra merki í sjón og tengist því á jákvæðan hátt.
Í upphafi ritgerðarinnar er farið yfir fræðin bak við firmamerki. Tilkoma og saga firmamerkja er rakin sérstaklega ásamt því að kanna hversu mikilvæg þau eru fyrirtækjum. Í fræðikaflanum er einnig farið yfir könnun sem rannsakar áhrif firma- og myndmerkja á orðspor og ímynd fyrirtækja. Þessum kafla lýkur svo á umfjöllun um virði firmamerkja, sem gefur lesendum innsýn í hversu mikil verðmæti geta skapast bakvið sterkt merki. Allir þessir þættir spila saman og gefa greinagóða mynd af því hversu stór hluti firmamerki eru af fyrirtækjum í heild sinni hvað varðar ímynd og vitund neytenda.
Við tekur svo umfjöllun um fyrirtæki sem hafa náð þeim áfanga að vera með þeim stærstu í heimi og notast við nafnlaus firmamerki. Í þessum kafla eru skoðuð þrjú fyrirtæki sem hafa farið þessa leið og reifað verður hvernig þau fóru að breytingunum hverju sinni og hvaða ástæður lágu að baki.
Höfundur hélt úti spurningakönnun þar sem þekking neytenda var könnuð gagnvart íslenskum fyrirtækjum eftir að nöfn þeirra voru fjarlægð úr firmamerkjunum. Undir lok ritgerðarinnar verður farið yfir helstu niðurstöðurnar úr þeirri könnun sem og þær kynntar fyrir sérfræðingum úr atvinnulífinu og þeirra mat lagt fram.
Helstu niðurstöður rannsóknarinnar leiða það í ljós að þau fyrirtæki sem neytendur bera hvað mesta vitund til, eru þau sem eru hvað sýnilegust og verða varir við nánast daglega. Mikilvægt er, til þess að hinn venjulegi neytandi þekki firmamerki, er að fyrirtæki séu á neytendamarkaði frekar en á fyrirtækjamarkaði, þó eru til undantekningar.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
SnorriGuðmundsson_BS_lokaverk.pdf | 3.31 MB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna | |
Yfirlysing_SnorriGudmundsson.pdf | 65.93 kB | Lokaður | Fylgiskjöl |