Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/26893
Fjöldi nemenda af erlendum uppruna í íslenskum grunnskólum hefur aukist jafnt og þétt síðustu ár. Mikilvægt er að kennarar séu vel undirbúnir og þekki árangursríkar leiðir til að koma til móts við nemendur sem eiga annað móðurmál en íslensku (ísl2), sameiginlegar og einstaklingslegar, svo að þeir taki reglulegum framförum í íslensku sem og öllum námsgreinum.
Markmið rannsóknarinnar var að kanna reynslu kennara af starfi með ísl2 nemendum og hvaða hugmyndir þeir hafa um það hvernig við getum sem best komið til móts við námslegar þarfir þeirra. Þegar mótuð er stefna í kennslu ísl2 nemenda og námsefni þróað er mikilvægt að byggja á reynslu þeirra sem hafa unnið með þessum nemendahópi.
Í rannsókninni var eigindlegri aðferðafræði beitt sem flokkast undir tilviksrannsókn. Tekin voru opin einstaklingsviðtöl við einn sérkennara og tvo umsjónarkennara sem hafa umsjón með námi og kennslu ísl2 nemenda. Niðurstöður voru skoðaðar og bornar saman við það sem fram kemur í lögum um grunnskóla og Aðalnámskrá grunnskóla sem og kenningar og niðurstöður rannsókna á þessu sviði.
Af viðtölum við þátttakendur má draga fram nokkrar ályktanir sem fela í sér sóknarfæri: Til þess að auka framfarir ísl2 nemenda í íslensku er mikilvægt að styðja betur við þá félagslega til að þeir eigi góð samskipti við ísl1 jafnaldra bæði innan og utan skólans. Þó kom fram að viðmælendur hafa ekki tekið mið af hæfniviðmiðum sem sett eru fram í Aðalnámskrá grunnskóla fyrir íslensku sem annað mál. Því þyrfti að hvetja kennara og skóla til þess að nýta sér hæfniviðmiðin því þannig má ætla að námið verði árangursríkara. Þá þyrfti að kynna betur fyrir kennurum nýjustu rannsóknir og kenningar á þessu sviði til þess að þeir geti unnið á faglegri og skilvirkari hátt með ísl2 nemendum sínum. Allir viðmælendur telja mikið og gott námsefni vera í boði en alltaf megi gera betur.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
Véný-M.Ed.-Lokaskil26.01.pdf | 904.17 kB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna | |
2016_03_skemman_yfirlysing_lokaverkefni_29.03.16.pdf | 143.75 kB | Lokaður | Yfirlýsing |