Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/26971
Í íslensku réttarkerfi hafa verið sett lög sem fjalla um vörumerki en það eru lög um vörumerki nr. 45/1997 (hér eftir skammstöfuð vml.). Í umfjöllun um vörumerkjarétt verður að byrja á því að gera grein fyrir því hvað vörumerki eru í raun og veru og hver séu markmið vörumerkjaréttar sem og hvað þurfi til að koma svo að tiltekið tákn eða merki teljist yfirhöfuð vera vörumerki og hafi öðlast þá vörumerkjavernd sem vml. taka til, en í stuttu máli má segja að stofnunarhættir vörumerkjaverndar séu tvenns konar, með skráningu vörumerkis og með notkun þess. Til sérstakrar skoðunar verður tekið það skilyrði sem mælt er fyrir um í 1. mgr. 2. gr. vml. um að vörumerki þurfi að vera sýnileg tákn, en af orðanna hljóðan mætti ætla að það takmarki vörumerkjahugtakið við þau tákn sem eru sýnileg berum augum. Það liggur í augum uppi að ekki eru öll vörumerki af sama tagi því til eru vörumerki sem talin hafa verið að einhverju leyti óhefðbundin og þeim verður helgaður stór hluti í eftirfarandi umfjöllun, en þ. á m. eru útlit, umbúðir og búnaður vöru, litir, lykt og hljóð. Áður en að því kemur verður að taka til skoðunar dóm dómstóls Evrópusambandsins í máli sem kennt hefur verið við umsækjanda þess, Ralf Sieckmann, en í þeim dómi er að finna ákveðin skilyrði sem lögð hafa verið til grundvallar í evrópskum vörumerkjarétti eftir að hann var kveðinn upp. Að því loknu verður vikið að þeim vörumerkjum sem hafa verið kölluð óhefðbundin og tekið til skoðunar hvernig hinum svokölluðu Sieckmann-skilyrðum hefur verið beitt við úrlausn mála innan evrópsks vörumerkjaréttar, um einstakar tegundir hinna óhefðbundnu vörumerkja. Einnig er litið til tilskipunar 2015/2424/EB sem felur í sér breytingar á vörumerkjahugtakinu. Að lokum er stuttlega litið til þeirra áhrifa sem tækniþróun, þ. á m. Veraldarvefurinn, hefur haft í vörumerkjarétti sem og hvaða áhrif fyrrgreind tilskipun hefur á íslenskan vörumerkjarétt.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
BA-ritgerð.pdf | 345,24 kB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna | |
Yfirlýsing um meðferð lokaverkefna.pdf | 341,39 kB | Lokaður | Yfirlýsing |