is Íslenska en English

Lokaverkefni (Meistara)

Háskóli Íslands > Félagsvísindasvið > Meistaraprófsritgerðir - Félagsvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/27052

Titill: 
 • Bráðabirgðaráðstafanir Mannréttindadómstóls Evrópu í málum hælisleitenda í ljósi meginreglunnar um bann við endursendingu (non-refoulement)
 • Titill er á ensku Interim measures of the European Court of Human Rights in cases of asylum seekers in accordance with the principle of non-refoulement
Námsstig: 
 • Meistara
Leiðbeinandi: 
Útdráttur: 
 • Mannréttindadómstóll Evrópu (hér eftir MDE eða dómstóllinn) var settur á fót samkvæmt Mannréttindasáttmálanum og er helsta hlutverk dómstólsins að framfylgja skuldbindingum aðildarríkja samkvæmt sáttmálanum. Dómstóllinn tekur á móti kærum frá einstaklingum eða ríkjum um brot aðildarríkja gegn ákvæðum sáttmálans og eru aðildarríki skyldug til að hlíta endanlegum dómi hans í hverju því máli sem þau eru aðilar að. Árið 1959 setti dómstóllinn sér sérstakar starfsreglur (e. Rules of the Court) þar sem ákvæði II. hluta sáttmálans um skipulag og málsmeðferð dómstólsins eru nánar útfærðar. Hafa starfsreglurnar verið uppfærðar reglulega undanfarna áratugi. Í 39. gr. reglnanna (áður 34. gr.) er að finna heimild dómstólsins til þess að gefa aðildarríkjum MSE tilmæli um bráðabirgðaráðstafanir (e. interim measures). Dómstóllinn tekur ákvörðun um slík tilmæli þegar kærandi til MDE hefur sent dómstólnum beiðni um að samþykkja bráðabirgðaráðstöfun. Þessar bráðabirgðaráðstafanir geta verið margskonar en í flestum tilvikum fela þær í sér að þeim tilmælum er beint til stjórnvalda aðildarríkis um að halda að sér höndum við brottvísun eða framsal einstaklings þangað til dómstóllinn hefur komist að niðurstöðu í máli kærandans.
  Hinn 4. febrúar 2005 kvað Mannréttindadómstóll Evrópu upp stefnumarkandi dóm varðandi skyldu ríkja til að hlíta tilmælum dómstólsins um bráðabirgðaráðstafanir. Með dómnum minnti dómstóllinn á að samkvæmt síðari málslið 34. gr. MSE hafa aðildarríki skuldbundið sig til þess að hindra ekki á nokkurn hátt raunhæfa beitingu kæruréttarins. Með því að fara ekki eftir tilmælum dómstólsins um bráðabirgðaráðstöfun samkvæmt 39. gr. RD gerist aðildarríki þannig sek um að hindra raunhæfa beitingu kæruréttarins og því brotleg gagnvart 34. gr. sáttmálans.
  Í ritgerð þessari verður sjónum beint að málum þar sem hælisleitendur óska þess að Mannréttindadómstóll Evrópu beiti heimild sinni samkvæmt 39. gr. starfsreglna dómstólsins um að mælast til þess við hlutaðeigandi aðildarríki að fresta brottvísun þeirra úr landi.
  Ritgerð þessari verður skipt upp í þrjá meginhluta. Í fyrsta hluta verður farið yfir þá alþjóðlegu- og evrópsku samninga er mestu skipta á sviði flóttamannaréttar, einkum flóttamannasamning Sameinuðu þjóðanna frá 1951 og bókun við hann frá 1967. Farið verður yfir þá vernd sem flóttamenn samkvæmt samningnum eiga rétt til og þær kröfur til aðildarríkja sem samningurinn felur í sér. Einnig verður þeim ákvæðum lýst, sem þýðingu hafa fyrir vernd flóttamanna, sem finna má í samningi Sameinuðu þjóðanna um bann við pyndingum og annarri grimmilegri, ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu frá 1984, Alþjóðasamningi um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi frá 1966 sem og Mannréttindasáttmála Evrópu. Í tengslum við umræðuna um MSE verður sérstaklega fjallað um tvö meginákvæði sem þýðingu hafa í tengslum við 39. gr. RD en það eru 2. og 3. gr. Mannréttindasáttmálans. Að því loknu verður stutt umfjöllun um samevrópska hæliskerfið (e. CEAS) en í því er að finna regluverk Evrópu ríkjanna er snýr að flóttamannamálum og fjallað verður um ákvæði hinnar svokölluðu Dyflinnarreglugerðar og þau vandamál sem upp komu við framkvæmd hennar. Í öðrum hluta verður farið yfir 34. gr. MSE um kærurétt einstaklinga. Fjallað verður um kæruréttinn sem hluta af eftirlitskerfi MSE og þær jákvæðu og neikvæðu skyldur sem hvíla á aðildarríkjum til þess að tryggja raunhæfa beitingu kæruréttarins. Í þriðja hluta verður fjallað um reglu 39. gr. starfsreglna MDE sem þátt í kærurétti einstaklinga. Farið verður yfir gildissvið, inntak og réttarheimildalega stöðu 39. gr. og fjallað um bráðabirgðaráðstafanir í málum er varða brottvísun hælisleitenda. Einkum verða skoðaðir dómar Mannréttindadómstólsins þar sem aðildarríki hafa ekki fylgt tilmælum dómstólsins um bráðabirgðaráðstöfun og nokkrar meginreglur og sjónarmið dómstólsins dregin fram um mat hans á brotum gegn banni við endursendingu (non-refoulement), sbr. 3. gr. MSE og kærurétti einstaklinga, sbr. 34. gr. MSE í slíkum málum.

Samþykkt: 
 • 2.5.2017
URI: 
 • http://hdl.handle.net/1946/27052


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
MA ritgerð lokaskjal 020517.pdf845.66 kBLokaður til...15.01.2031HeildartextiPDF
yfirlýsing um meðferð lokaverkefna skemman.pdf237.46 kBLokaðurYfirlýsingPDF