is Íslenska en English

Lokaverkefni (Meistara)

Háskóli Íslands > Félagsvísindasvið > Meistaraprófsritgerðir - Félagsvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/27086

Titill: 
  • Aðgangur kvenna með þroskahömlun, sem orðið hafa fyrir kynferðisofbeldi, að réttinum í ljósi 13. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks
Námsstig: 
  • Meistara
Útdráttur: 
  • Yfir milljarður einstaklinga í heiminum býr við fötlun og myndar þar með einn stærsta og jafnframt verst setta minnihlutahópinn. Fatlað fólk þarf oft að þola hindranir á lífsgæðum sínum vegna fötlunar sinnar en þær geta verið margvíslegar.
    Ekki hefur tekist að ná sátt um inntak og eðli hugtaksins mannréttindi en í alþjóðasamfélaginu hefur þó verið fallist á tilteknar meginreglur sem ríkjum beri virða. Allir eiga jafnan rétt til mannréttinda án mismununar. Á alþjóðlegum vettvangi hafa verið gerðir samningar sem kveða sérstaklega á um mannréttindi einstaklinga. Slíkir samningar kunna að mæla fyrir um skyldur ríkja til að viðhafa tiltekna háttsemi eða að láta af háttsemi, í því skyni að stuðla að og vernda mannréttindi og mannfrelsi einstaklinga og hópa. Þann 13. desember 2006 var samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks (SRFF) og valfrjáls bókun við hann samþykkt. Opnað var fyrir undirritanir þann 30. mars 2007. Samningurinn er afrakstur áratuga langrar vinnu Sameinuðu þjóðanna um breytta nálgun og viðhorf til fatlaðs fólks. Lögð er áhersla á það að fatlað fólk séu einstaklingar sem njóti réttinda og geti tekið ákvarðanir um eigið líf. Ísland undirritaði samninginn þann 30. mars 2007 og samþykkti Alþingi þingsályktunartillögu um fullgildingu hans þann 20. september 2016.
    Þegar brotið er á réttindum einstaklings hefur aðgangur að réttinum (e. access to justice) grundvallarþýðingu og er hann jafnframt nauðsynlegur hluti verndar og fullnustu mannréttinda. Þegar einstaklingar lenda í deilum er nauðsynlegt að til séu úrræði þeim til verndar gagnvart hugsanlegum skaða og eiga úrræðin að ráða bót á skaðanum með einhverjum hætti. Það er ekki samsvörun á milli þess að koma á rétti og að tryggja hann og af þeim sökum skyldar SRFF aðildarríki til að tryggja viðeigandi umhverfi svo að fatlað fólk geti notið réttinda sinna til jafns við aðra og þar með talið aðgangs að réttinum.
    Ein af þeim takmörkunum sem minnihlutahópar, þ.ám. fatlað fólk, þarf oft að þola er lakari aðgangur að réttinum og vernd fyrir lögum. Markmiðið með þessari ritgerð er að varpa ljósi á aðgang fatlaðra kvenna að réttinum þegar þær hafa orðið fyrir kynferðisbroti en rannsóknir hafa sýnt að fatlaðar konur eru mun líklegri til að verða fyrir ofbeldi en ófatlaðar konur. Kannað verður hvernig íslenskt réttarkerfi tekur á þessum málum og hvaða viðmið liggja til grundvallar. Skoðað verður hvort fatlaðar konur njóti að einhverju leyti annarra úrræða en ófatlað fólk, hvort réttarkerfið komi til móts við þarfir þeirra í ljósi fötlunar þeirra eða hvort þær fái sömu meðferð og ófatlað fólk. Þá verður reynt að svara þeirri spurningu hvort almennt sé þörf á sértækum úrræðum í þessum tilvikum. Í ljósi þess að birtingarmynd fötlunar er margbreytileg verður ritgerð þessi afmörkuð við umfjöllun um aðgang kvenna með þroskahömlun, sem náð hafa 18 ára aldri, að réttinum skv. 13. gr. SRFF. Þær konur njóta því ekki lengur verndar barnaverndaryfirvalda.
    Í upphafi ritgerðarinnar verður leitast við að gera grein fyrir hvað felst í orðinu fötlun og hvort til sé samræmd skilgreining á hugtakinu í lögum og alþjóðasamningum. Í 3. kafla verður fjallað almennt um aðgang að réttinum. Farið verður yfir hugmyndafræði ítalska fræðimannsins Mauro Cappelletti sem settar voru fram á áttunda áratug síðustu aldar ásamt því að skoðuð verða skrif fræðimannsins Francesco Francioni um aðgang að réttinum sem hann setti fram í upphafi 21. aldar. Því næst verður vikið að samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks og þá sérstaklega ákvæði 13. gr. hans sem fjallar um aðgang að réttinum. Loks verður fjallað um skrif fræðimannsins Eilionóir Flynn um aðgang að réttinum í ljósi ákvæðis 13. gr. SRFF. Í 4. kafla verður fjallað um réttarstöðu kvenna með þroskahömlun. Varpað verður ljósi á kynferðisbrot gegn fötluðu fólki með vísan til kynferðisbrotakafla almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Í lok kaflans verður vikið að þeirri togstreitu sem kann að myndast milli kynfrelsis fatlaðs fólks og skyldu samfélagsins til að vernda þessa einstaklinga fyrir hvers kyns misnotkun. Í 5. kafla verður málsmeðferð hins íslenska réttarvörslukerfis tekin til skoðunar. Rýnt verður í málsmeðferð hjá lögreglu og ákæruvaldi. Skoðað verður hvaða reglur embættin starfa eftir, hvernig rannsóknum er hagað og hvort lögregla hafi til sérstakra úrræða að grípa þegar upp koma kynferðisbrotamál gegn konum með þroskahömlun. Því næst verður sjónum beint að dómstólum. Athugun mun beinast að málsmeðferðinni og hvort fyrir hendi séu sértæk úrræði fyrir konur með þroskahömlun hjá dómstólum. Í lok kaflans verður leitast við að svara því hvort réttarkerfið hafi nægan skilning og þekkingu á stöðu kvenna með þroskahömlun til að takast á við mál þeirra, þannig að enginn vafi sé á því að þær njóti sama réttar og þar með jafns aðgangs að réttinum og ófatlaðar konur. Í 6. kafla verða niðurstöður og meginatriði dregin saman.

Samþykkt: 
  • 4.5.2017
URI: 
  • http://hdl.handle.net/1946/27086


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
Ingibjörg Albertsdóttir.pdf988.55 kBLokaður til...05.05.2050HeildartextiPDF
Yfirlysing.PDF32.59 kBLokaðurYfirlýsingPDF