is Íslenska en English

Lokaverkefni (Meistara)

Háskóli Íslands > Félagsvísindasvið > Meistaraprófsritgerðir - Félagsvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/27112

Titill: 
  • Reynslulausn og rafrænt eftirlit: Samkvæmt lögum nr. 15/2016 og samanburður við norrænan rétt
Námsstig: 
  • Meistara
Leiðbeinandi: 
Útdráttur: 
  • Í þessari ritgerð er umfjöllunarefnið fullnustúrræði utan fangelsa með áherslu á reynslulausn og rafrænt eftirlit og framkvæmd þessara úrræða í íslenskum rétti. Farið verður yfir hvaða reglur gilda um þessi úrræði innan íslenska refsivörslukerfisins, en ný lög, nr. 15/2016 um fullnustu refsinga (hér eftir fnl.), tóku gildi hinn 31. mars 2016. Staðreyndin er sú að mikill meirihluti þeirra sem hljóta óskilorðsbundna fangelsisrefsingu fyrir dómstólum afplána ekki alla refsinguna. Það er vegna heimildar í fnl. til að veita viðkomandi reynslulausn eða heimild til að afplána undir rafrænu eftirliti. Þessi úrræði eru möguleg þegar dómþoli hefur afplánað ákveðinn hluta refsingar og að öðrum skilyrðum uppfylltum. Með setningu framangreindra laga var heimild til veitingar reynslulausnar rýmkuð með þeim hætti að föngum á tilteknu aldursbili gefst nú kostur á reynslulausn fyrr en áður. Auk þess var heimildin til rafræns eftirlits rýmkuð með þeim hætti að afplána má nú lengri hluta refsingar undir rafrænu eftirliti. Uppruni þessara úrræða er mismunandi ef litið er til notkunar þeirra í íslenskum rétti. Reynslulausn á sér langa sögu sem úrræði til refsigæslu utan stofnana en rafrænt eftirlit kom hins vegar ekki inn í íslenskan rétt fyrr en árið 2011 og var formlega tekið í notkun árið 2012. Í ljósi þess tæknibúnaðar sem rafræna eftirlitið krefst er saga þess eðli máls samkvæmt ekki ýkja löng. Þrátt fyrir að rafrænt eftirlit sé meira íþyngjandi úrræði og oftast forveri reynslulausnar þá miða bæði þessi úrræði að því að aðlaga viðkomandi að samfélaginu á ný eftir fangelsisvist. Togstreita er á milli þess að hve miklu marki reynslulausn og rafrænt eftirlit eigi rétt á sér og þess hvort að frekar eigi að dæma fólk til vægari refsinga, en þetta álitamál lýtur að grundvallarskipulagi refsivörslukerfisins. Það eru fangelsismálayfirvöld hér á landi sem útfæra refsingar og ákveða hvort viðkomandi fái veitta reynslulausn eða heimild til að afplána undir rafrænu eftirliti en dómstólar sem dæma menn til refsinga, sbr. 2. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 (hér eftir stjskr.). Það má deila um réttmæti þess að meiri líkur en minni eru á að dómþoli verði kominn út mun fyrr en refsing dómstóla segir til um og að Fangelsismálastofnun hafi ákvörðunarvaldið í þeim efnum. Því skiptir miklu hvernig staðið er að ákvörðun um beitingu úrræðanna og að meginreglur stjórnsýsluréttar, svo sem jafnræðisreglan, séu virtar. Efnisskipanin er þannig að fyrst verður fjallað um refsingar og kennilegan grundvöll þeirra og þá einnig á hvaða kennilega grundvelli reglur um reynslulausn og rafrænt eftirlit byggja. Því næst tekur við umfjöllun um sögu reynslulausnar í íslenskum rétti og inntak hennar. Í kafla fjögur er svo farið yfir reglur um reynslulausn í Noregi og Danmörku til samanburðar. Næsti kafli þar á eftir fjallar um rafrænt eftirlit hér á landi og í Danmörku, Svíþjóð og Noregi. Til að fá heildstæðari yfirsýn er sérkafli tileinkaður tölfræði og rannsóknum bæði hvað varðar rafrænt eftirlit og reynslulausn og afstöðu almennings til þessara úrræða. Að lokum verður svo leitast við að svara því hvað mætti betur fara og leggja fram tillögur að mögulegum breytingum varðandi reynslulausn og rafrænt eftirlit í íslenskum rétti, en einnig er farið yfir það sem talið er óþarft að breyta.

Samþykkt: 
  • 5.5.2017
URI: 
  • http://hdl.handle.net/1946/27112


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
lokaskil.pdf880,84 kBLokaður til...05.05.2050HeildartextiPDF
yfirlýsing%20.pdf64,04 kBLokaðurYfirlýsingPDF