Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/27114
Í 2. málsl. 1. mgr. 72. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 er mælt fyrir um að skilyrði eignarnáms séu þrenn, þ.e. að almenningsþörf krefji, að lagafyrirmæli séu fyrir hendi og að fullt verð komi fyrir. Í nýlegri dómaframkvæmd virðist aftur á móti hafa mótast fjórða skilyrði eignarnáms, þ.e. að gætt hafi verið meðalhófs. Markmið ritgerðarinnar er að rannsaka hvort eignarnám sé háð slíku skilyrði, og ef svo er, á hvaða grundvelli krafa um meðalhóf við eignarnám hvílir og hvert sé inntak hennar. Í því skyni að ná markmiði ritgerðarinnar verða dregnar fram gildandi réttarreglur um eignarnám í íslenskum rétti sem varpað geta ljósi á þær kröfur sem gerðar eru til eignarnáms. Byggt verður á greiningu á íslenskri löggjöf, dómaframkvæmd Hæstaréttar Íslands og skrifum fræðimanna. Þá verður leitað fanga í dönskum rétti og kannað hvernig þarlendir dómstólar hafa beitt meðalhófsreglu við endurskoðun eignarnáms. Að lokum verður sjónum beint að 1. gr. 1. samningsviðauka við Mannréttindasáttmála Evrópu og rannsakað verður hvernig Mannréttindadómstóll Evrópu hefur beitt meðalhófsreglunni við beitingu ákvæðisins.
Í ritgerðinni er rökstudd sú kenning höfundar að meðalhófsreglan sé ekki sjálfstætt skilyrði eignarnáms heldur komi hún til skoðunar við mat á því hvort skilyrði 1. mgr. 72. gr. stjórnarskrárinnar um almenningsþörf sé uppfyllt. Færð eru rök fyrir því að aukið vægi meðalhófsreglu við endurskoðun eignarnáms standi í nánum tengslum við þróun sem orðið hefur á endurskoðunarvaldi dómstóla á stjórnskipulegu gildi laga. Meðalhófsregla stjórnskipunarréttar virðist hafa rutt sér til rúms sem meginaðferð í þeim málum þar sem reynir á takmarkanir á stjórnarskrárvörðum mannréttindum og virðist reglan því koma í auknum mæli til skoðunar við endurskoðun dómstóla á eignarnámi. Fjallað er um inntak meðalhófsreglu stjórnskipunarréttar við eignarnám en erfitt getur reynst að gera grein fyrir inntaki hennar án þess að taka inntak meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 samhliða til skoðunar þar sem reglurnar skarast að miklu leyti enda fer eignarnám yfirleitt fram á grundvelli stjórnvaldsákvörðunar. Að lokum er vikið að inntaki meðalhófsreglu 1. gr. 1. samningsviðauka Mannréttindasáttmála Evrópu og það borið saman við beitingu íslenskra dómstóla á meðalhófsreglu við eignarnám. Ljóst er að talsverður munur er á beitingu Mannréttindadómstóls Evrópu og íslenskra dómstóla á meðalhófsreglunni en dómstóllinn hefur ekki lagt jafn ríka áherslu á að staðreyna að vægara úrræði hafi verið fyrir hendi og íslenskir dómstólar.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
SVO_Meistararitgerd.pdf | 963.73 kB | Lokaður til...01.01.2100 | Heildartexti | ||
Snaebjorn_yfirlysing.pdf | 305.77 kB | Lokaður | Yfirlýsing |