Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/27122
Fiskveiðar í sjó hafa frá upphafi Íslandsbyggðar verið afar mikilvægar fyrir land og þjóð. Enn í dag er stór hluti af útflutningstekjum þjóðarinnar vegna sjávarafurða og er sjávarútvegur ein af grunnstoðum íslensks atvinnulífs, auk þess að vera undirstaða byggðar í mörgum landshlutum. Efnahagslegt mikilvægi sjávarútvegar hér á landi er óumdeilanlegt og þá hefur sjávarútvegur einnig skipað stóran sess í íslenskri menningu og arfleifð.
Núgildandi fiskveiðistjórnkerfi á Íslandi er í daglegu tali nefnt kvótakerfið, en til einföldunar má segja að hlutverk þess sé að vernda tiltekna nytjastofna sjávar frá ofveiði og stuðla að hagkvæmri nýtingu þeirra. Umfjöllunarefni ritgerðarinnar lýtur að þeim veruleika að til þess að íslenska fiskveiðistjórnkerfið virki þarf að hafa eftirlit með kerfinu og beita viðurlögum þegar reglur þess eru brotnar. Í því skyni hefur verið byggt upp tvíþætt kerfi, annars vegar eftirlitskerfi og hins vegar viðurlagakerfi.
Meginviðfangsefni þessarar ritgerðar er að greina helstu lagalegu álitaefni sem tengjast eftirliti með fiskveiðum í sjó og viðurlögum við fiskveiðibrotum, og jafnframt að veita heildaryfirsýn yfir eftirlits- og viðurlagakerfi íslenska fiskveiðistjórnkerfisins. Þá er leitast við að lýsa helstu löggjöf fiskveiðistjórnkerfisins er við kemur þessu sviði og gera grein fyrir gildandi rétti, þ.e. lögum og reglum þar sem við á. Að lokum er leitast við að veita innsýn í eftirlits- og viðurlagakerfi, bæði í Noregi og Evrópusambandinu, til samanburðar við hið íslenska.
Efnistök ritgerðarinnar eru þannig að fyrst er fjallað um aflamarkskerfið og meginreglur þess.
Í þriðja kafla er fjallað um lög nr. 79/1997 um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands. Í lögunum er mælt fyrir um meginreglur sem eru oft nefndar tæknilegar verndarráðstafanir en markmiðið með þessum ráðstöfunum er að hindra óæskileg áhrif við veiðar á heildarafla einstakra tegunda.
Í fjórða kafla er fjallað um lög nr. 57/1996 um umgengni um nytjastofna sjávar. Í lögunum er mælt fyrir um meginreglur sem miða aðallega að því að koma í veg fyrir brottkast afla og tryggja rétta skráningu og vigtun sjávarafla.
Í fimmta kafla er fjallað um eftirlitskerfi íslenska fiskveiðistjórnkerfisins. Fyrst er umfjöllun um þá aðila sem fara með eftirlitið og þá er tekið til skoðunar hvernig eftirlitið fer fram, annars vegar á sjó og hins vegar í landi.
Í sjötta kafla er fjallað um viðurlagakerfi íslenska fiskveiðistjórnkerfisins. Umfjöllunin snýr að þeim viðurlagaúrræðum sem heimilt er að grípa til gegn þeim sem brotið hafa af sér. Við yfirferðina er jafnframt tekin til skoðunar dómaframkvæmd og ákvörðun refsingar í sakamálum í þessum málaflokki.
Í sjöunda kafla er fjallað um eftirlits- og viðurlagakerfi í öðrum ríkjum. Tekið er til skoðunar eftirlits- og viðurlagakerfi sameiginlegu sjávarútvegsstefnu Evrópusambandsins og norska fiskveiðistjórnkerfisins.
Að lokum, eða í áttunda kafla ritgerðarinnar, er svo leitast við að taka saman efni ritgerðarinnar og draga ályktanir af umfjöllunarefni hennar þar sem við á.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
Meðferð stafræns eintaks.pdf | 116.44 kB | Lokaður | Yfirlýsing | ||
Lokaritgerð - Master.pdf | 922.04 kB | Lokaður til...05.05.2050 | Heildartexti |