is Íslenska en English

Lokaverkefni (Meistara) Háskóli Íslands > Félagsvísindasvið > Meistaraprófsritgerðir - Félagsvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/27135

Titill: 
 • Heimildir kínverskra aðila til fjárfestinga á Íslandi og réttarstaða þeirra
Námsstig: 
 • Meistara
Útdráttur: 
 • Erlent fjármagn er ein af meginforsendum uppbyggingar og framþróunar íslensks atvinnulífs og samhliða forsenda þess að Íslendingar geti búið við álíka lífskjör og þekkjast í nágrannalöndunum. Það eru helst tvenns konar farvegir fyrir erlent fjármagn til Íslands; lánsfé eða fjárfesting. Seinni kosturinn þykir almennt ákjósanlegri, en tíðkast þó hér á landi í mun minna mæli en sá fyrri.
  Fjármögnun í formi erlendrar fjárfestingar hefur marga kosti umfram erlenda lántöku. Þar má fyrst nefna aukið öryggi fyrir hinn innlenda aðila, sem móttekur fjárfestinguna og þar af leiðandi minni þjóðhagsleg áhætta. Það má rekja til þess að hinn erlendi fjárfestir fær aðeins arð af fjárfestingunni skili hún hagnaði. Erlendur fjárfestir verður með fjárfestingu sinni þátttakandi í atvinnulífinu, hefur hagsmuni af góðu gengi þess og getur ekki stokkið frá borði þegar skammtímaáföll ganga yfir.
  Ísland og Kína hafa átt jákvæð samskipti - bæði á stjórnmálavettvangi og á viðskiptasviðinu - um langt skeið, en það má sem dæmi álykta af því að þjóðirnar hafa sín á milli gert ýmsa samninga, þar á meðal tvíhliða fjárfestingarsamning, fríverslunarsamning og gjaldmiðlaskiptasamninga. Þrátt fyrir þetta hefur verið lítið um beina erlenda fjárfestingu frá kínverskum aðilum hér á landi.
  Markmið ritgerðarinnar er í fyrsta lagi að varpa ljósi á það réttarumhverfi sem í gildi er varðandi fjárfestingu kínverskra aðila hér á landi og í öðru lagi að fjalla um þær ívilnanir til nýfjárfestinga, sem kínverskir fjárfestar eiga möguleika á samkvæmt íslenskum lögum. Leitað verður svara við því í hverju kínverskir aðilar geta fjárfest hér á landi og hvernig.
  Fyrri hluti ritgerðarinnar hefur að geyma nokkuð ítarlega umfjöllun um innlendan rétt er varðar fjárfestingu erlendra aðila á Íslandi almennt. Það eru helst þrír lagabálkar sem heyra þar undir, en hver og einn þeirra er skoðaður sérstaklega. Í fyrsta lagi lög nr. 34/1991 um fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri, í öðru lagi lög nr. 19/1966 um eignarrétt og afnotarétt fasteigna og í þriðja lagi lög nr. 41/2015 um ívilnanir til nýfjárfestinga á Íslandi.
  Seinni hluti ritgerðarinnar fjallar um þær þjóðréttarlegu skuldbindingar milli Íslands og Kína er varða fjárfestingar. Aðal umfjöllunarefnið er tvíhliða fjárfestingarsamningur milli ríkisstjórnar lýðveldisins Íslands og ríkisstjórnar Alþýðulýðveldisins Kína um að hvetja til fjárfestinga og veita þeim gagnkvæma vernd, sem undirritaður var árið 1994. Samningnum er að ætlað að hvetja til og skapa hagstæðar og öruggar aðstæður til fjárfestinga af hálfu fjárfesta annars ríkisins á landsvæði hins. Samningurinn hefur að geyma ákveðnar meginreglur um hvernig móttökuríki fjárfestingar skuli koma fram við fjárfesta og fjárfestingu þeirra og eru þær raktar með útskýringum og tilvísunum í alþjóðlega gerðardóma.
  Í lok ritgerðarinnar er loks samandregin umfjöllun um réttarstöðu kínverskra aðila til fjárfestinga hér á landi að teknu tilliti til þeirra atriða, sem fjallað hefur verið um í fyrri köflum ásamt niðurstöðu.

Samþykkt: 
 • 5.5.2017
URI: 
 • http://hdl.handle.net/1946/27135


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
Ernir Skorri Pétursson - Heimildir kínverskra aðila til fjárfestinga á Íslandi og réttarstaða þeirra pdf.pdf2.82 MBLokaður til...27.02.2040HeildartextiPDF
Yfirlýsing um meðferð lokaverkefna sem varðveitt eru í Landsbókasafni Íslands.pdf15.78 MBLokaðurYfirlýsingPDF