is Íslenska en English

Lokaverkefni (Meistara)

Háskóli Íslands > Félagsvísindasvið > Meistaraprófsritgerðir - Félagsvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/27150

Titill: 
  • Afturvirkni skattalaga
Námsstig: 
  • Meistara
Leiðbeinandi: 
Útdráttur: 
  • Umfjöllunarefni þessarar ritgerðar, sem unnin er til meistaraprófs í lögfræði við Háskóla Íslands, er afturvirkni skattalaga, en með 2. mgr. 77. gr. stjórnarskrárinnar eru lagðar hömlur við álagningu skatta með afturvirkum hætti. Regla greinarinnar kom ný inn í mannréttindakafla stjórnarskrárinnar við endurskoðun hans árið 1995 og nýtur þeirrar sérstöðu að vera eina regla stjórnarskrárinnar sem berum orðum setur skattlagningarvaldi löggjafans efnisleg takmörk. Á undanförnum árum hefur verið mikil gerjun á sviði skattaréttar í kjölfar þess að vegna þjóðfélagsaðstæðna bar brýna nauðsyn til að afla hinu opinbera tekna til að standa undir stórauknum útgjöldum. Við slíkar aðstæður, svo sem eins og við skattlagningu yfirleitt, geta verið miklir hagsmunir í húfi, bæði fyrir skattgreiðendur og hið opinbera. Markmið ritgerðarinnar er að lýsa inntaki reglu 2. mgr. 77. gr. stjórnarskrárinnar, þeim áhrifum sem hún hefur á störf löggjafans og hvernig henni er beitt í dóma-, úrskurðar- og skattframkvæmd. Rannsóknin er unnin á grundvelli hinnar almennt viðurkenndu lögfræðilegu aðferðar og er ætlað að vera lýsandi um gildandi rétt.
    Ritgerðinni er kaflaskipt og í öðrum kafla er fjallað um hugtakið afturvirkni og hvaða þýðingu það hefur í réttarframkvæmd. Í þriðja kafla er vikið að þeim stjórnskipulega ramma sem skattlagningarvaldinu er markaður og skatthugtakinu. Í fjórða kafla er 2. mgr. 77. gr. stjórnarskrárinnar nánar skýrð og þeim röksemdum sem búa slíkri reglu að baki nánar lýst. Fimmti kafli er helgaður umfjöllun um dóma- og úrskurðarframkvæmd. Umfjölluninni er skipt upp í tvo hluta miðað við árið 1995. Í sjötta kafla er vikið stuttlega að afturvirkri skattframkvæmd. Í sjöunda kafla eru niðurstöður dregnar saman.
    Meginniðurstöður ritgerðarinnar eru að lögfesting 2. mgr. 77. gr. stjórnarskrárinnar hafi stuðlað að markvissari löggjafarstefnu í skattamálum, að hugtakið afturvirkni sé sem slíkt ekki nægjanlega nákvæmur mælikvarði við beitingu reglunnar og að gildissvið og inntak reglunnar sé nokkuð víðtækt og hún taki, eða geti að minnsta kosti tekið, bæði til beinna og óbeinna afturvirkra áhrifa að öðrum skilyrðum uppfylltum.

Samþykkt: 
  • 5.5.2017
URI: 
  • http://hdl.handle.net/1946/27150


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
Þorsteinn Ingason.pdf708.77 kBOpinnHeildartextiPDFSkoða/Opna
Kápa Þorsteinn Ingason.pdf162.13 kBOpinnForsíðaPDFSkoða/Opna
Skemman_Yfirlýsing_útfyllt.pdf38.82 kBLokaðurYfirlýsingPDF