Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/2721
Í þessari ritgerð er byrjað á því að fjalla um hvernig tungumál geta staðsett frásagnir sínar í tíma með því að nota tíðir, og þá fylgir umfjöllun um innri tíma frásagna, svokallað tíðarhorf, og það skoðað bæði í raddmálum og táknmálum. Fram kemur að raddmál nota mismunandi aðferðir til að sýna tíðarhorf, að íslenskan notar t.d. tíðaratviksorð á meðan önnur raddmál nota m.a. viðskeyti, og að þetta er einnig mismunandi meðal táknmála. Rannsóknir á breska, bandaríska og sænska táknmálinu eru skoðaðar og þar kemur fram að breyting á hreyfingu grunnforms tákna og endurtekningar á því eru meðal þeirra atriða sem notuð eru til að sýna tíðarhorf og að einnig eru notuð stök tákn fyrir tíðaratviksorðin, sem þykja vera áhrif úr raddmálum. Ekki hefur verið rannsakað hvernig þessu er farið í íslenska táknmálinu.
Þá er lýst rannsókn sem gerð var með aðstoð nokkurra málhafa á íslenska táknmálinu, þar sem tíðarhorf var aðalrannsóknarefnið. Rætt er um val á táknurum, og þeim sögnum og íslensku tíðaratviksorðum sem rannsökuð voru. Þá er fjallað um framkvæmd rannsóknarinnar og ýmsa galla hennar, þar á meðal áhrif íslenskunnar á rannsóknina, þar sem notaðar voru íslenskar setningar.
Niðurstöður rannsóknarinnar eru síðan teknar fyrir og þær athugaðar á mismunandi hátt. Skoðuð er hverj sögn fyrir sig, hvert tíðarhorf fyrir sig og að lokum eru táknararnir bornir saman. Í ljós kemur, þegar allir þessir mismunandi fletir eru athugaðir, að íslenska táknmálið notar mismunandi hraða og stærð endurtekinna hreyfinga til að sýna hin ýmsu tíðarhorf. Hægari og stærri hreyfingar benda til tíðarhorfsins lengi, á meðan hraðari og minni hreyfingar eru notaðar til að sýna tíðarhorfin oft og stöðugt. Íslenska táknmálið virðist líkjast einna mest breska táknmálinu hvað varðar tíðarhorf, af þeim táknmálum sem skoðuð voru.
Að lokum er nokkrar vangaveltur um hvernig best væri að halda áfram rannsóknum á tíðarhorfi í íslenska táknmálinu.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
pd_fixed.pdf | 212.67 kB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna |