is Íslenska en English

Lokaverkefni (Bakkalár)

Háskóli Íslands > Hugvísindasvið > B.A. verkefni - Hugvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/27211

Titill: 
 • Íslenska og japanska. Um málfræðikennslu íslensku og japönsku sem annars máls á Íslandi og í Japan
Námsstig: 
 • Bakkalár
Útdráttur: 
 • Mikilvægt er að völ sé á markvissri og góðri tungumálakennslu til að auðvelda fólki að læra tungumál og með því auka samskipti fólks frá ólíkum menningarheimum. Í kennslu annars máls er að mörgu að hyggja því nemendur þurfa að tileinka sér orðaforða og málfræði nýja tungumálsins. Í þessari ritgerð eru kennsluaðferðir sem notaðar eru við kennslu íslensku sem annars máls við Háskóla Íslands skoðaðar og þær bornar saman við kennslu japönsku sem annars máls við Waseda háskóla í Japan. Námskeiðin Orðaforði I við Háskóla Íslands og Intensive 1–2 við Waseda háskóla, sem borin eru saman, eiga það sameiginlegt að vera hluti af hagnýtu námi sem lýkur með diplómagráðu eftir eitt ár. Þar er lögð áhersla á að kenna nýgræðingum málfræði og málnotkun. Eins og rakið er í ritgerðinni eru íslenska og japanska harla ólík tungumál en eiga það sameiginlegt að hafa mikið af „beygingum“. Þar sem mikilvægt er að nemendur tileinki sér „beygingar“ íslensku og japönsku hratt og örugglega mætti ætla að svipaðar kennsluaðferðir henti til að kenna tungumálin tvö.
  Við samanburð námskeiðanna Orðaforði I og Intensive 1–2 kom í ljós að ólíkum kennsluaðferðum er beitt við kennslu þeirra. Aðferðin fókus á form, sem styðst við aðleiðslu og afleiðslu, er notuð við kennslu í námskeiðinu Intensive 1–2 en kennsluaðferðin sem notuð eru við kennslu Orðaforða I minnir á málfræði- og þýðingaraðferðina. Í Intensive 1–2 tekst kennurum að virkja nemendur í kennslustundum, nota fjölbreyttar kennsluaðferðir og setja fyrir verkefni af ýmsum toga. Mikið er aftur á móti um fyrirlestra og verkefni beint upp úr kennslubókinni í námskeiðinu Orðaforði I.
  Tekin voru viðtöl við fimm nemendur sem sátu námskeiðið Orðaforða I haustið 2016 og fimm nemendur sem sátu Intensive 1–2 haustið 2015 svöruðu sömu spurningum skriflega. Niðurstöður sýna að þeir nemendur sem rætt var við í Orðaforða I hefðu viljað persónulegra námsumhverfi þar sem nemendur væru færri og kennari hefði meiri tíma til að sinna hverjum nemenda fyrir sig. Auk þess hefðu þeir viljað að kennsluaðferðir og verkefni hefðu verið fjölbreyttari. Þeir nemendur í Intensive 1–2 sem svöruðu spurningunum skriflega voru almennt sáttir með kennsluna sem þeir fengu og sérstaklega ánægðir með hve þéttur nemendahópurinn var. Þeim fannst samskiptin einkennast af samstarfi og trausti.
  Villugreining var gerð á textum nemenda í Orðaforða I til að varpa ljósi á þær reglur sem nemendur búa sér til við tileinkun íslensku sem annars máls. Í ljós kom að villum nemendanna svipaði til villna sem börn með íslensku að móðurmáli gera á máltökuskeiðinu. Því má ætla að þeir fari í gegnum stigbundna þróun og búi sér að einhverju leyti til sambærilegar reglur í námsferlinu. Við mótun kennslu í námskeiðinu Orðaforði I gæti því verið gagnlegt að taka mið af því sem tileinkun annars máls og móðurmáls eiga sameiginlegt.
  Af námskeiðinu Intensive 1–2 má draga þann lærdóm að þrátt fyrir að markmálið einkennist af mikilli málfræði og snúnum beygingum má auðveldlega nota óhefðbundna kennsluhætti, svo sem leiki og fjölbreytt verkefni, við kennslu málfræðireglna í kennslustundum. Niðurstöður þessarar ritgerðar ættu að geta nýst við þróun kennslu íslensku sem annars máls við Háskóla Íslands.

Samþykkt: 
 • 8.5.2017
URI: 
 • http://hdl.handle.net/1946/27211


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
Karítas Hrundar Pálsdóttir -BA ritgerð.pdf640.43 kBOpinnHeildartextiPDFSkoða/Opna
Yfirlýsing.pdf101.54 kBLokaðurYfirlýsingPDF