Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/27343
Í þessari ritgerð er rýnt í hugtakið vöðvabíóið sem snýr að hasargreininni á níunda áratugnum og fylgst með þróun þess í gegnum árin og hver staða þess er í nútímanum. Inngangurinn hefst á því að fjallað er stuttlega um kvikmyndina The Expendables (2010, Sylvester Stallone) og viðtökur á henni sem endurspegluðu að miklu leyti viðtökur til vinsælustu kvikmynda upprunalega vöðvabíósins (First Blood (1982, Ted Kotcheff) og The Terminator (1984, James Cameron)). Ásamt því er rennt yfir upphaf ferla á helstu fulltrúum vöðvabíóisins, Sylvester Stallone og Schwarzenegger sem leika báðir í The Expendables. Í kjölfarið verður rýnt í þær samfélagslegu aðstæður sem kölluðu á slíkar myndir á níunda áratugnum og bornar saman við hugmyndafræði nýju hægri stefnunnar undir leiðsögn Bandaríkjaforsetans Ronalds Reagans. Stuðst verður við kenningar þekktra fræðimanna á borð við Laura Mulvey um stjörnukenningar og Rick Altman um greinafræði kvikmynda til að útskýra helstu breytingarnar sem hafa átt sér stað í vöðvabíóinu síðan forsetatíð Reagans lauk.
Fyrsti kaflinn fer út í samanburð á stefnumálum Bandaríkjaforsetans George H. W. Bush, sem tók við af Reagan, og nýjum áherslum í hasargreininni. Stallone og Schwarzenegger víkja frá íhaldssömu og afturhaldssömu hlutverkum sínum sem mæddir stríðsmenn og ógnvekjandi stríðsvélar sem táknuðu fyrirmyndar karlmennskuna á sínum tíma en urðu síðar að óviðunandi ímynd sem samfélagið hafnaði og fordæmdi. Hér má færa rök fyrir því að vöðvabíóið og hugmyndafræði þess hafi liðið undir lok á hvíta tjaldinu. Fyrri hluti meginmálsins leitast við að útskýra endalok þess á fræðilegan hátt og einnig ræða um aðdraganda endurreisnarinnar sem átti sér stað á síðasta áratug með tilkomu myndanna Rocky Balboa (2006, Stallone) og Rambo (2008, Stallone) og náði síðan hápunkti með The Expendables. Spurningin er hvort að endurreisnin hafi verið fyrirsjáanleg og hvað einkennir hana.
Síðari hluti meginmálsins fjallar um vöðvabíóið í sinni nútímalegri mynd þar sem helstu fyrirmyndir þess eru komnir á eftirlaunaaldur en eiga eitthvað óuppgert við hasargreinina og komnir aftur á fullt skrið á hvíta tjaldinu sem óstöðvandi öfl í hasargreininni. Stallone er borinn saman við Clint Eastwood, eina skærustu stjörnu vestrans, og litið er á svipaða þætti úr endurkomum þeirra í myndum síðasta áratugar og hvað skilur þá að. Fjallað er um ellina með hugmyndir um stjörnukenningar og ódauðleika stjörnuímyndarinnar. Í lokin er fjallað um Stallone og Schwarzenegger staðalímyndina um hasarhetjuna, karlmennskukvíðann sem einkennir endurreisn vöðvabíósins og framsetningu á ellinni í kvikmyndum þeirra.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
Harðskeytt gamalmenni, BA-ritgerð.pdf | 517.81 kB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna | |
yfirlýsing um meðferð verkefnis, Sindri Dan.pdf | 1.04 MB | Lokaður | Yfirlýsing |