Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/27420
Í flestum samfélögum í heiminum í dag þykir eðlilegt að brjóst kvenna séu hulin á almannafæri, jafnvel í þeim aðstæðum þar sem karlar eru jafnan berir að ofan. Víða er löglegt fyrir konur að vera berbrjósta til jafns við karla en þrátt fyrir það brýtur það gegn viðmiðum og gildum samfélagsins og eru berbrjósta konur því oft litnar hornauga. Undanfarin ár hefur það færst í aukana meðal kvenna að draga réttmæti þessara viðmiða í efa og hafa í kjölfarið sprottið upp hreyfingar sem berjast fyrir rétti kvenna til að bera brjóstin, þar á meðal alþjóðlega hreyfingin Free the Nipple. Á Íslandi eru engin lög sem banna konum að vera berbrjósta á almannafæri, en það þykir almennt óviðeigandi. Íslendingar eru almennt taldir standa mjög framarlega í jafnréttismálum en þó hefur það sýnt sig að fjölda Íslendinga þykir með baráttu þessari vegið að gildum samfélagsins eða óttast slæmar afleiðingar fyrir hönd kvennanna sem tóku þátt í henni. Árið 2015 birti ung kona mynd af geirvörtu sinni á Twitter og gagnrýndi tvískinnung samfélagsins og í kjölfarið varð til atburðarás sem hefur verið kölluð íslenska brjóstabyltingin. Byltingin var gríðarlega áberandi en það var þó ekki nóg til að koma í veg fyrir að annað fjaðrafok ætti sér stað tveimur árum seinna, í janúar 2017, þegar ungri konu var vísað upp úr sundlaug fyrir að vera berbrjósta. Samfélagsumræðan vegna beggja mála bar með sér sameiginleg einkenni, fjöldi fólks studdi málstaðinn en einnig voru margir honum mótsnúnir. Viðhorf andstæðinga og ástæður þeirra voru athyglisverðar, og mátti oft á tíðum greina áhyggjur þeirra á meðal. Áhyggjur og ótti innan samfélags getur þróast út í siðfár, sem er sú atburðarás þegar fyrirbæri sem stangast á við gildi og viðmið samfélags vekur ótta langt umfram raunverulegt umfang vandans. Í rannsókn þessari var farið í saumana á undanfara brjóstabyltingarinnar og afleiðingum, og byltingin síðan skoðuð út frá siðfárskenningum. Þá var hún borin saman við sundlaugarmálið. Erfitt getur verið að mæla siðfársástand en niðurstöður sýndu þó að bæði brjóstabyltingin og sundlaugarmálið báru með sér ýmis siðfárseinkenni. Það er þó umdeilanlegt hvort að hægt sé að fullyrða um að siðfár hafi átt sér stað.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
BA Ritgerð, lokadrög.pdf | 1.06 MB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna | |
yfirlýsing.pdf | 313.62 kB | Lokaður |