is Íslenska en English

Lokaverkefni (Bakkalár)

Háskóli Íslands > Heilbrigðisvísindasvið > B.S. verkefni - Heilbrigðisvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/27497

Titill: 
 • Háls- og nefkirtlatökur í íslenskum börnum á árunum 2005-2016. Nýgengi og möguleg áhrif upptöku bólusetningar gegn pneumókokkum.
Námsstig: 
 • Bakkalár
Útdráttur: 
 • Inngangur: Háls- og nefkirtlar gegna mikilvægu hlutverki í áunna ónæmiskerfinu, einkum hjá börnum. Stórir kirtlar geta orsakað þrengsli í öndunarvegi og/eða stuðlað að endurteknum sýkingum í efri loftvegum. Háls- og nefkirtlatökur (HNT) eru ein algengasta aðgerð sem gerð er á börnum en nokkur munur er á nýgengi á milli landa. Skortur er á gagnreyndum heimildum um skýran ávinning aðgerða. Markmið rannsóknarinnar er að meta nýgengi HNT á Íslandi á árunum 2005-2016 hjá íslenskum börnum yngri en 18 ára, ásamt aldurs- og kynjadreifingu og möguleg áhrif upptöku bólusetningar gegn pneumókokkum á fjölda aðgerða.
  Efniviður og aðferðir: Gögn frá Sjúkratryggingum Íslands (SÍ) veittu upplýsingar um HNT sem gerðar voru á tímabilinu. Gjaldnúmer aðgerða var nýtt til að finna tegund og fjölda aðgerða. Upplýsingum um dagsetningu aðgerðar, læknanúmer, fæðingarmánuð og -ár barns, kyn og búsetu var safnað. Upplýsingum um fjölda aðgerða á Heilbrigðisstofnun Vesturlands á Akranesi var bætt við rannsóknina. Aðgerðum var skipt í tvo flokka; hálskirtlatökur (HT) og nefkirtlatökur (NT). Ársnýgengi aðgerða var reiknað eftir aldursári og kyni. Við mat á áhrifum upptöku bólusetningar gegn pneumókokkum var börnum skipt í tvo ferilhópa, bólusett og óbólusett, eftir því hvort þau voru fædd fyrir árið 2011 þegar slíkar bólusetningar hófust. Lýsandi tölfræðigreining var gerð í R. T-próf og kí-kvaðrat próf voru notuð til að meta mun milli hópa og ára. Einþátta línuleg aðhvarfsgreining var gerð til að meta fylgni milli fjölda háls-, nef- og eyrnalækna (HNE) og nýgengis HT. Nýgengishlutfall milli bólusettra og óbólusettra barna eftir að hópum hafði verið lagskipt eftir aldursári var borið saman með Mantel-Haenszel tilgátuprófi.
  Niðurstöður: Á tímabilinu voru gerðar 23.296 kirtlatökur á börnum <18 ára á Íslandi; 9.755 HT og 13.541 NT. Aldursstaðlað meðalársnýgengi HT á hver 1.000 börn <18 ára var 10,2 og fyrir NT 14,1. Aldursstaðlað meðalársnýgengi HT var hæst meðal þriggja ára barna, 26,5 aðgerðir/1000 börn og meðalársnýgengi NT var hæst meðal eins árs gamalla barna, 107,0 aðgerð/1000 börn. HT voru oftast gerðar á 3,8 ára gömlum börnum og NT á 1,3 ára gömlum börnum. Ekki var marktækur kynjamunur á heildarfjölda aðgerða (P=0,21). Marktækt fleiri NT voru gerðar hjá drengjum (P<0,001) og marktækt fleiri HT hjá stúlkum (P<0,001). Fleiri kirtlatökur voru gerðar á drengjum undir sex ára aldri (P<0,001) en í börnum yfir sex ára aldri voru kirtlar oftar teknir hjá stúlkum (P<0,001). Miðaldur barna við HT var 6,3 ár og við NT 2,1 ár. Meðalaldur drengja við HT var 2,4 árum lægri en stúlkna (P<0,001) og 0,3 árum lægri við NT (P<0,001). HT fjölgaði á tímabilinu, þrefalt fleiri HT voru gerðar árið 2014 en 2006 (P<0,001). Línulegt samband var á milli fjölda HNE lækna sem fengu greitt frá SÍ og ársnýgengis HT (P=0,013). Eftir upptöku bólusetningar gegn pneumókokkum fækkaði NT (P<0,001) en HT fjölgaði (P<0,001) hjá börnum fimm ára og yngri.
  Ályktun: Nýgengi HT jókst mikið á tímabilinu og er með því hæsta sem þekkist í heiminum auk þess sem nokkur fjöldi aðgerða er gerður á mjög ungum börnum. NT fækkaði marktækt á tímabilinu eftir upptöku bólusetningar gegn pneumókokkum en HT fjölgaði á sama tíma. Til að koma í veg fyrir óþarfa aðgerðir mætti setja fram skýrar íslenskar klínískar leiðbeiningar, auka eftirlit með framkvæmd aðgerða og bæta skráningu ýmissa þátta sem snúa að HNT.

Samþykkt: 
 • 11.5.2017
URI: 
 • http://hdl.handle.net/1946/27497


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
yfirlysing.pdf93.39 kBLokaðurYfirlýsingPDF
Háls_og_nefkirtlatokur_HMT.pdf6.41 MBLokaður til...11.05.2022HeildartextiPDF