is Íslenska en English

Lokaverkefni (Bakkalár)

Háskóli Íslands > Heilbrigðisvísindasvið > B.S. verkefni - Heilbrigðisvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/27527

Titill: 
 • Candida blóðsýkingar á Íslandi 2009-2016
Námsstig: 
 • Bakkalár
Útdráttur: 
 • Inngangur: Candida blóðsýkingum hefur farið fjölgandi undanfarna þrjá áratugi sem helst má skýra með auknum fjölda sjúklinga í áhættuhóp. Slíkar sýkingar leggjast helst á inniliggjandi sjúklinga á sjúkrahúsum með alvarlega undirliggjandi sjúkdóma. Hátt dánarhlutfall fylgir Candida blóðsýkingum eða allt að 40% og því mikilvægt að meðhöndla þær á réttan hátt. Nýlega voru gefnar út evrópskar (2012) og bandarískar (2016) klínískar leiðbeiningar um viðeigandi meðferð þar sem áhersla er m.a. lögð á notkun ekinokandín lyfja. Markmið rannsóknarinnar var að skoða nýgengi Candida blóðsýkinga á tímabilinu 2009 til 2016, tegundasamsetningu sveppastofna sem ræktast ásamt næmi þeirra fyrir lyfjum, hvernig meðferð hefur verið háttað hér á landi og hvernig horfur sjúklinga hafa þróast.
  Efnir og aðferðir: Framkvæmd var lýðgrunduð, afturvirk rannsókn fyrir tímabilið 1. janúar 2009 til 31. desember 2016 en leyfi til aðgangs að sjúkraskrám nær eftir til ársins 1980. Upplýsingar um jákvæðar blóðræktanir voru fengnar frá Sýkla- og veirufræðideild Landspítalans og Sjúkrahúsinu á Akureyri. Tilfelli var skilgreint sem a.m.k ein jákvæð blóðræktun með Candida tegund og sjúklingur talinn með aðskildar sýkingar ef meira en 30 dagar liðu frá jákvæðri blóðræktun að þeirri næstu eða ef um var að ræða mismunandi Candida tegundir í aðskildum blóðræktunum. Gagnasöfnun fór fram í Filemaker og skráð voru gögn úr Sýkla- og veirufræði gagnagrunni og sjúkraskrám. Úrvinnsla fór fram í Excel og Rstudio.
  Niðurstöður: Á átta ára tímabilinu frá 2009 til 2016 greindust 115 blóðsýkingar í 111 sjúklingum en fjórir sjúklingar sýktust tvisvar. Þrír sjúklingar voru með blandaða sýkingu (meira en eina Candida tegund í sömu blóðræktun) og ræktuðust því 118 Candida stofnar alls. Alls voru 7 (6%) sjúklinganna börn (≤ 16 ára) og var miðaldur þeirra 2 (0.1-12.5) ár en miðaldur fullorðinna (> 16 ára) var 66.8 (22.1-92) ár. Meðaltal nýgengis yfir tímabilið var 4.5 tilfelli/100.000 íbúa/ár. Aldursbundið nýgengi reyndist vera hæst meðal karla yfir 80 ára eða 41 tilfelli/100.000 íbúar/ár. Fimm Candida tegundir ollu meira en 95% allra sýkinga. Þær voru C. albicans (50%), C. glabrata (21%), C. tropicalis (10%), C. dubliniensis (8%) og C. parapsilosis (6%) en undanfarna áratugi hefur sú þróun átt sér stað á Íslandi að hlutfall C. albicans hefur farið lækkandi og hlutfall annarra Candida tegunda hefur aukist. Flestir (78%) fengu sýkinguna inniliggjandi á sjúkrahúsi. Algengast var að sjúklingar lægju á lyflækningadeildum (40%) og gjörgæsludeildum (27%) er sýking greindist. Helstu áhættuþættir sýkingar voru fyrri sýklalyfjanotkun (81%), inniliggjandi æðaleggir (69%), illkynja sjúkdómar (25%), sterameðferð (25%) og kviðarholsaðgerð (23%) innan mánuðar fyrir greiningu. Meginuppistaða sveppalyfjameðferðar var flúkónazól en 90% fengu flúkónazól sem fyrsta lyf og 83% fengu flúkónazól sem aðalmeðferð ( > 50% heildarmeðferðar). Á tímabilinu var 30 daga dánarhlutfall 26% en fyrir tímabilið 1980 til 1989 var 30 daga dánarhlutfallið 41% og sýndu niðurstöður úr Cox aðhvarfsgreiningu að 30 daga lifun hefur farið marktækt batnandi frá árinu 1980 (p = 0.007).
  Ályktanir: Nýgengi á tímabilinu var 4.5 tilfelli/100.000 íbúa/ár en það er svipað og sést hefur á Norðurlöndunum fyrir utan Danmörku, en lægra en lýst hefur verið í Bandaríkjunum. Candida sýkingar hafa verið taldar leggjast helst á yngsta (<1 árs) og elsta aldurshópinn. Hæsta nýgengið hjá okkur sást meðal aldurshópsins yfir 60 ára en aðeins einn nýburi greindist á átta ára tímabilinu. Ekki er að fullu ljóst afhverju það stafar en rétt áður en rannsóknartímabilið hófst var breytt verklagsreglum um miðlæga bláæðaleggi á Vökudeild sem gæti að einhverju leiti útskýrt þetta lága nýgengi. C. albicans var orsök 50% allra sýkinga sem er í samræmi við erlendar rannsóknir. Flúkónazól var meginuppistaða sveppalyfjameðferðar en hinar nýju klínísku leiðbeiningar mæla í flestum tilfellum með notkun ekinokandín lyfja sem virðast hafa í för með sér betri horfur. Þrátt fyrir hátt 30 daga dánahlutfalli, 26%, sjáum við að horfur hafa farið markækt batnandi frá árinu 1980 og verður áhugavert að sjá hvort sú tala muni lækka enn frekar á næstu árum með bættri meðferð og greiningu.

Samþykkt: 
 • 12.5.2017
URI: 
 • http://hdl.handle.net/1946/27527


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
RebekkaRos_Candidabloðsykingar.pdf2.54 MBOpinnHeildartextiPDFSkoða/Opna
yfirlýsingbsverkefni 1.pdf44.79 MBLokaðurYfirlýsingPDF