is Íslenska en English

Lokaverkefni (Bakkalár)

Háskóli Íslands > Heilbrigðisvísindasvið > B.S. verkefni - Heilbrigðisvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/27533

Titill: 
  • Sjúkraflutningar nýbura og tengsl við þróun fæðingarþjónustu á Íslandi. 1992-2015
Námsstig: 
  • Bakkalár
Útdráttur: 
  • Inngangur: Á Íslandi fæðast þrjú af hverjum fjórum börnum á Landspítalanum (LSH). Sum börn sem fæðast utan LSH þarf að flytja á Vökudeild Barnaspítala Hringsins (VBH) vegna veikinda. Á undanförnum árum hefur fæðingarstöðum hér á landi fækkað og búast má við að sjúkraflutningum á veikum nýburum hafi fækkað samhliða en það hefur ekki verið skoðað. Markmið rannsóknarinnar er að kanna hvernig sjúkraflutningum á nýburum hefur verið háttað hér á landi á árunum 1992-2015. Bornar verða saman sjúkdómsgreiningar og alvarleiki veikinda barna sem flutt voru á VBH við börn fædd á LSH. Einnig verður skoðað hvaða breyting hefur átt sér stað hvað varðar fjölda fæðingarstaða á Íslandi. Loks verður kannað hverjar áætlaðar ástæður fyrirburafæðinga eru á landsbyggðinni samanborið við fyrirburafæðingar á LSH.
    Efni og aðferðir: Afturskyggn tilfella- og viðmiðarannsókn sem náði til allra nýbura sem fæddust utan LSH og flytja þurfti á VBH á árunum 1992-2015. Klínískra upplýsinga og tegund flutnings á VBH var aflað úr Vökudeildarskrá og sjúkraskrám barna og mæðra. Fyrir hvert barn sem flutt var á VBH voru fundin sem viðmið fjögur (fullburða börn) eða tvö (fyrirburi) börn sem fæddust á LSH næst á eftir og á undan tilfellinu. Fyrirburarnir voru paraðir á meðgöngulengd. Notast var við lýsandi tölfræði og tilgátuprófanir.
    Niðurstöður: Alls fæddust 767 börn utan LSH sem flytja þurfti á VBH á tímabilinu, 305 stúlkur (39,8%) og 462 drengir (60,2%). Rannsóknartímabilinu var skipt í tvö 12 ára tímabil. Meðaltal sjúkraflutninga á ári lækkaði marktækt á milli tímabilanna (p-gildi= <,0001*). Á fyrra tímabili þurfti að flytja 2,5% þeirra barna sem fæddust utan LSH en 2,2% þeirra á seinna tímabili (p-gildi= 0,235). Fullburða börn sem flutt voru á VBH voru veikari og þurftu marktækt oftar súrefnismeðferð, öndunarvélameðferð, niturildi og sýklalyf samanborið fullburða börn fædd á LSH. Fyrirburar fluttir á VBH þurftu marktækt oftar meðferð með öndunarvél, ásamt sýklalyfjum. Á fyrra tímabili rannsóknar voru að meðaltali sex fyrirburar fluttir á ári á VBH en að meðaltali fjórir á því seinna (p-gildi= 0,03). Ekki var markækur munur á áætluðum ástæðum fyrirburafæðinga kvenna sem fæddu utan LSH og þeirra sem fæddu á LSH. Fæðingum fækkaði marktækt á öllum fæðingarstöðum landsins nema á LSH, Sjúkrahúsinu á Akureyri (SAk), Neskaupsstað, Akranesi og í heimahúsum.
    Ályktanir: Sjúkraflutningar eru mikilvægur hluti af starfsemi Vökudeildar Barnaspítala Hringsins. Börn sem flytja þarf sjúkraflutningum eru almennt veikari en börn sem fæðast á fæðingardeild Landspítalans. Sjúkraflutningum nýbura hefur fækkað samhliða fækkun fæðingarstaða og fjölgun fæðinga á LSH. Fækkun fæðingarstaða er í samræmi við auknar kröfur um gæði heilbriðgisþjónustu. Þörf fyrir sjúkraflutninga á fyrirburum hefur minnkað marktækt sem bendir til bættrar þjónustu við þungaðar konur á landsbyggðinni þar sem þær eru sendar á Kvennadeildina LSH hafi þær þekkta áhættuþætti.

Samþykkt: 
  • 12.5.2017
URI: 
  • http://hdl.handle.net/1946/27533


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
Hugrun_BSc_Sjukraflutningar_nybura.pdf1.22 MBOpinnHeildartextiPDFSkoða/Opna
Doc 11 May 2017, 22.05.pdf950.62 kBLokaðurPDF