is Íslenska en English

Lokaverkefni (Bakkalár)

Háskóli Íslands > Heilbrigðisvísindasvið > B.S. verkefni - Heilbrigðisvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/27538

Titill: 
 • Stenotrophomonas maltophilia blóðsýkingar ásamt öðrum sýkingum af hennar völdum á Íslandi
Námsstig: 
 • Bakkalár
Útdráttur: 
 • Inngangur: Stenotrophomonas maltophilia er loftháð Gram neikvæð staflaga baktería og vex í röku umhverfi. S. maltophilia myndar örverufilmur (e. biofilm) fyrst og fremst á innra yfirborði æðaleggja. Almennt er S. maltophilia talin vera baktería með litla meinvirkni en sýkingar af hennar völdum geta þó verið alvarlegar. Áhættuþættir fyrir S. maltophilia sýkingar eru m.a. ónæmisbæling, inniliggjandi æðaleggir, útsetning fyrir breiðvirkum sýklalyfjum og löng dvöl á sjúkrahúsi. Algengustu sýkingar sem S. maltophilia veldur eru lungnasýkingar, blóðsýkingar (e. bacteremia), sýklasótt (e. sepsis) og húð- og þvagfærasýkingar. Erfitt getur verið að meðhöndla S. maltophilia sýkingar vegna ónæmis fyrir nær öllum aminoglycosíðum og β-lactam sýklalyfjum, þar á meðal carbapenemlyfjum. Trimethoprim/sulfamethoxazole (TMP/SMX) er besta meðferðin við sýkingum vegna S. maltophilia.
  Tilgangur rannsóknarinnar var að finna hvaða sjúklingahópar fengu þessar sýkingar af völdum S. maltophilia. Jafnframt finna hvað væri sameiginlegt með þessum sjúklingum.
  Efni og aðferðir: Allar jákvæðar S. maltophilia blóðræktanir síðast liðinn áratug voru fundnar í gögnum Sýklafræðideildar LSH. Klínískum upplýsingum var síðan safnað úr sjúkraskrám sjúklinganna. Þá var klínískum upplýsingum einnig safnað úr sjúkraskrám þeirra einstaklinga sem lágu á LSH eða HSS og höfðu ræktast með S. maltophilia í hvaða ræktun sem er frá 1. október 2016 til 3. mars 2017.
  Niðurstöður: Alls voru 41 sjúklingur með blóðsýkingu af völdum S. maltophilia á tímabilinu en engar á árunum 2014 og 2015. Sjúklingahópurinn var helst skipaður krabbameinssjúklingum (36.5%) og sprautufíklum (19.5%). Þá voru 24.5% sjúklinga með hvítkornafæð við sýkingu. Algengast var að sýkingin væri rakinn til æðaleggja (24.5%). Dánartíðni fullorðinna var 23% en 40% sjúklinganna með hvítkornafæð létust. Aðeins 40% allra sjúklinganna voru settir á TMP/SMX en þó sást að fleiri voru settir á TMP/SMX á seinni árum tímabilsins. Þá hafði 34% sjúklinganna fengið carbapenemlyfjum ávísað innan við 30 dögum fyrir sýkingu. Þeir voru þó ekki marktækt líklegri til að deyja úr sýkingunni heldur en hinir sjúklingarnir sem ekki voru meðhöndlaðir með carbapenemlyfjum. Þá fundust 36 sjúklingar sem höfðu ræktast jákvæðir fyrir S. maltophilia í öðrum ræktunum heldur en blóðræktunum á seinna tímabilinu. Þar var sjúklingahópurinn helst skipaður krabbameinssjúklingum (31.5%) og sjúklingum með langvinna lungnateppu (29%). Flest sýnin komu frá lungum (50%) og það voru einnig algengustu klínísku sýkingarnar. Þá voru 69.5% sjúklinga með klíníska sýkingu settir á TMP/SMX.
  Umræður og ályktanir: Rekja má um fimmtung allra S. maltophilia blóðsýkinga á Íslandi síðast liðinn áratug til sprautunotkunar vegna fíkniefnaneyslu. Þessum áhættuhópi hefur ekki verið áður lýst. Þá sást að hvítkornafæð jók líkurnar á því að sjúklingur myndi deyja vegna S. maltophilia blóðsýkingar (P=0.036). Flestir sjúklinganna höfðu áhættuþætti sem auka líkurnar á sýkingu svo sem æðaleggi og ónæmisbælingu. Þessi rannsókn sýnir að S. maltophilia skal höfð í huga þegar sprautufíklar og sjúklingar með hvítkornafæð eru til meðhöndlunar. Jafnframt sýnir hún að aðeins 40% sjúklinga með S. maltophilia blóðsýkingu fengu bestu sýklalyfjameðferð en þó höfðu fleiri sjúklingar fengið TMP/SMX á seinni hluta tímabilsins heldur en fyrri hluta þess sem bendir til jákvæðrar þróunar þegar það kemur
  að gjöf TMP/SMX við S. maltophilia blóðsýkingum á Íslandi.

Samþykkt: 
 • 12.5.2017
URI: 
 • http://hdl.handle.net/1946/27538


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
Ólafur_Orri_Sturluson_Stenotrophomonas_maltophilia.pdf1.59 MBOpinnHeildartextiPDFSkoða/Opna
Yfirlýsing um meðferð lokaverkefna.pdf1.44 MBLokaðurYfirlýsingPDF