Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/27544
Inngangur: Op á milli gátta (atrial septal defect; ASD) er næstalgengasti meðfæddi hjartagallinn á meðal íslenskra barna eða um 16% alvarlegra hjartagalla. Á fósturskeiði myndast op, sporgat, á milli gáttanna sem beinir hluta blóðflæðis frá hægri gátt í vinstri fram hjá lungum og í útæðahringrás (systemic circulation). Sporgatið lokast í 70 – 75% tilvika eftir fæðingu vegna þrýstingsaukningar í vinstri gátt. Ef sporgatið lokast ekki er einstaklingurinn með fósturop (patent foramen ovale) sem flokkast ekki sem hjartagalli. Ef raunverulegur galli verður við myndun gáttaskipta á fósturskeiði fæðist barnið með ASD. Hjartagallinn skiptist í fjórar mismunandi gerðir eftir staðsetningu. Op á miðjum gáttaskiptum eða secundum op eru algengust eða um 80 - 90% galla. Einkenni ops á milli gátta eru yfirleitt lítil hjá börnum og koma ekki fram fyrr en á fertugsaldri. Með tímanum getur aukið blóðflæði frá vinstri í hægri gátt valdið útvíkkun á hægri hjartahólfum og ýtt undir hjartabilun sem er ábending til lokunar með aðgerð. Lengi vel voru öll íslensk börn send erlendis í hjartaaðgerð en frá árinu 1997 hafa hjartaaðgerðir vegna ops á milli gátta verið framkvæmdar á Íslandi. Árið 2005 var op á milli gátta lokað í fyrsta sinn í hjartaþræðingu á Íslandi. Markmið rannsóknarinnar er að meta árangur aðgerða á börnum með op á milli gátta frá því þær hófust á Landspítalanum árið 1997 og bera saman skurðaðgerðir og þræðingar m.t.t. árangurs, fylgikvilla, legutíma, aldur barna ofl.
Efni og aðferðir: Rannsóknin er afturskyggn þar sem farið var yfir sjúkraskrár barna með greininguna; op á milli gátta á Landspítala sem fóru í aðgerð eða í hjartaþræðingu á árunum 1997 – 2016. Einnig var farið yfir sjúkraskrár á stofum hjartalækna og upplýsingum safnað um endurkomur eftir inngrip.
Niðurstöður: Alls voru framkvæmd 96 inngrip sem skiptust í 66 aðgerðir og 30 hjartaþræðingar á 94 börnum. Nýgengi ops á milli gátta sem þörf var að loka var 1:908 lifandi fæddum börnum, þar af voru drengir 32 og stúlkur 63, kynjahlutfall 1,94:1. Óhljóð við hjartahlustun leiddi til greiningar hjá 63% barna og miðaldur greiningar var 1 ára (spönn 0 – 17 ára). Með tilkomu þræðingar fækkaði aðgerðum, 5,6 aðgerðir voru framkvæmdar á meðaltali á ári fyrir árið 2005 en 1,8 aðgerðir á ári eftir 2005. Í skurðaðgerðum var miðaldur við aðgerð 3 ára (spönn 1 – 17 ára). Miðstærð ops var var 12 mm (spönn 6 – 35) og fjöldi barna með secundum op var 61 (92%). Meðalgjörgæslutími var 2 1.5 sólarhringir og meðallegutími var 7.1 2.5 dagar. Skurðaðgerð bar árangur í 97% tilfella. Fylgikvillar fylgdu í kjölfar 63 aðgerða (95%), ellefu (18%) voru alvarlegir og eitt (2%) barn var með leka um bót einu ári eftir lokun. Í hjartaþræðingum var miðaldur við þræðingu 12 ára (spönn 4 – 17 ára). Miðstærð ops var var 8.5 mm (spönn 3.5 - 25) og fjöldi barna með secundum op var 25 (83%). Ekkert barn dvaldi á gjörgæslu eftir þræðingu og meðallegutími var 1.2 0.5 dagar. Þræðing bar árangur í 97% tilfella. Minniháttar fylgikvillar fylgdu í kjölfar 8 (27%) þræðinga og ekkert barn var með leka um tappa einu ári eftir lokun.
Ályktanir: Hjartaþræðing og skurðaðgerð eru báðar öruggar og árangursríkar meðferðir við lokun ops á milli gátta. Árangur hérlendis er sambærilegur við erlendar stofnanir. Færri fylgikvillar og styttri legutími voru í þræðingarhópnum samanborið við skurðaðgerðarhópinn.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
Sara_M_Gudnyjardottir_op_a_milli_gatta.pdf | 9.41 MB | Opinn | BS ritgerð | Skoða/Opna | |
yfirlýsing.pdf | 70.53 kB | Lokaður |