is Íslenska en English

Lokaverkefni (Bakkalár)

Háskóli Íslands > Heilbrigðisvísindasvið > B.S. verkefni - Heilbrigðisvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/27545

Titill: 
 • Mælingar á blóðsykri hjá nýburum á kvennadeild Landspítalans og Vökudeild Barnaspítala Hringsins
Námsstig: 
 • Bakkalár
Útdráttur: 
 • Inngangur: Árið 2011 var gerð rannsókn á því hvernig blóðsykurseftirliti væri háttað hjá nýburum á kvennadeild Landspítalans og Vökudeild Barnaspítala Hringsins. Í rannsókninni kom í ljós að eftirlitinu var að mörgu leyti ábótavant, ekki síst hjá börnum sykursjúkra mæðra. Í kjölfarið var sett fram verk-lagsregla sem tók gildi 2011 sem segir til um hvernig eftirliti með blóðsykri og inngripum fyrir börn mæðra með insúlínháða sykursýki og meðgöngusykursýki týpu 1 og 2, skuli háttað. Í reglunni segir að leggja skuli barnið á brjóst sem fyrst eftir fæðingu (innan 30 mínútna) og að mæla eigi blóðsykur hjá því við tveggja klst. aldur. Markmið þessarrar rannsóknar voru að kanna hvort blóðsykurseftirlit fari eftir núgildandi verklagsreglu, hvort eftirlitið hafi batnað frá fyrri rannsókn og kanna hvaða börn eru í mestri hættu á að mælast með lágan blóðsykur.
  Efniviður og aðferðir: Rannsóknin var afturskyggn og upplýsinga var aflað úr sjúkraskrám, mæðraskrám og eftirlitsblöðum barna. Safnað var almennum upplýsingum um móður og barn sem og upplýsingum um blóðsykurseftirlit og inngrip. Rannsóknarúrtakið var 359 mæður sem voru með sykur-sýki á meðgöngu og fæddu börn á árunum 2015-2016 og börn þeirra. 193 mæður og börn þeirra úr fyrri rannsókn voru notuð sem viðmiðunarúrtak.
  Niðurstöður: Meðalaldur nýbura við fyrstu blóðsykursmælingu var tvær klukkustundir. Miðað við fyrri rannsókn hafði þessi tími lengst um tæpar 40 mínútur. Marktæk lækkun var í skráningu fæðugjafa milli tímabilanna (p<0,001), en í 31,3% tilvika var ábótargjöf skráð og í 86,1% var brjóstagjöf, skráð en 54,4% og 95,9% í fyrri rannsókn. Lægstu blóðsykursgildi barna mæðra með insúlínháða sykursýki mældust marktækt lægri (p<0,001) en börn mæðra með meðgöngusykursýki af tegund 1 og 2. Ekki var marktækur munur á aldri hópanna við lægstu mælingu. Hinsvegar voru börn mæðra með insú-línháða sykursýki mæld marktækt fyrr en börn mæðra með meðgöngusykursýki af tegund 1 (p = 0,0067). Ekki var maktækur munur á fjölda blóðsykursmælinga á fyrstu þremur sólahringunum eftir fæðingu milli tímabilanna tveggja.
  Ályktanir: Blóðsykureftirlit á kvennadeild Landspítala og Vökudeild virðist fara fram eftir gildandi verklagsreglu og hefur batnað frá því hún voru sett. Börn mæðra með insúlínháða sykursýki eru í meiri hættu að mælast með lágan blóðsykur en börn mæðra með meðgöngusykursýki af tegund 1 eða 2, sem hugsanlega má að einhverju leyti rekja til þess að þau eru mæld fyrr en þau síðarnefndu. Niður-stöður rannsóknarinnar styðja mikilvægi þess að vel sé fylgst með börnum mæðra með sykursýki á meðgöngu fyrstu klukkustundirnar eftir fæðingu.

Samþykkt: 
 • 12.5.2017
URI: 
 • http://hdl.handle.net/1946/27545


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
BS_EggertÓlafurÁrnason.pdf1.34 MBOpinnHeildartextiPDFSkoða/Opna
[Untitled].pdf29.4 kBLokaðurPDF