is Íslenska en English

Lokaverkefni (Bakkalár)

Háskóli Íslands > Heilbrigðisvísindasvið > B.S. verkefni - Heilbrigðisvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/27546

Titill: 
 • Sýkingar hjá 18 mánaða börnum á Íslandi
Námsstig: 
 • Bakkalár
Útdráttur: 
 • Inngangur: Sýkingar eru algeng orsök veikinda, sérstaklega hjá börnum. Öndunarfærasýkingar eru ein algengasta orsök komu á heilsugæslu á Íslandi en iðrakveisur eru einnig algengar. Kvef er algengasta öndunarfærasýkingin bæði hjá börnum og fullorðnum. Bráðamiðeyrnabólga er einnig algeng í börnum og er algeng ástæða sýklalyfjaávísunar. Endurteknar bráðamiðeyrnabólgur leiða oft til ísetningar hljóðhimnuröra. Erlendar rannsóknir á veikindamynstrum í samfélaginu og notkun heilbrigðisþjónustu hafa leitt í ljós að meirihluti veikinda á sér stað utan heilbrigðisstofnanna og margir upplifa veikindi án þess að leita læknis. Fáar rannsóknir eru til um sýkingar ungbarna utan heilbrigðisgeirans hér á landi. Markmið þessarar rannsóknar var því að rannsaka með framvirkum hætti sýkingar meðal 18 mánaða barna á Íslandi og helstu úrræði við þeim.
  Efniviður og aðferðir: Foreldrum sem komu með börnin sín í 18 mánaða skoðun á heilsugæsluna var boðið að taka þátt í rannsókninni. Foreldrarnir svöruðu spurningalista um ýmislegt er tengdist fjölskylduhag og heilsufarssögu barnsins. Auk þess skráðu foreldrarnir með framvirkum hætti í dagbók, dag fyrir dag, í einn mánuð öll sýkingaeinkenni barns auk upplýsinga um fjarveru foreldris frá skóla og vinnu, læknisheimsóknir, sýklalyf og heilsufar annarra fjölskyldumeðlima. Rannsóknin fór fram á heilsugæslustöðvum á höfuðborgarsvæðinu, Ísafirði, Akureyri, Egilsstöðum og í Vestmannaeyjum. 250 börn tóku þátt og alls náði skráningin yfir 7691 dag, flestir yfir vetrarmánuðina.
  Niðurstöður: Alls fengu 93,2% barnanna sýkingaeinkenni á einum mánuði, 38,6% (96/249) barna leituðu til læknis og eitt barn (0,4%) var lagt inn á spítala. Veikindi talin í dögum reyndust 36,3% (2788/7691). Ómarktæk hneigð var í þá átt að börn sem ættu ekki systkini, börn með ofnæmi og börn háskólamenntaðra mæðra væru líklegri til að leita læknis. Börn af höfuðborgarsvæðinu voru líklegri til að leita læknis en börn af landsbyggðinni. Öndunarfærasýking var algengasta ástæða læknisheimsóknar. Kvef var algengasta sýkingaeinkennið en 82,3% barna fengu öndunarfærasýkingaeinkenni á mánuðinum. 19,4% barnanna voru með hljóðhimnurör. Börn af höfuðborgarsvæðinu voru marktækt oftar með hljóðhimnurör en börn af landsbyggðinni. Sýklalyfjum var ávísað í 25,3% læknisheimsókna. Algengasta orsök sýklalyfjaávísunar var bráðamiðeyrnabólga og var Augmentin (Amoxicillin og Klavúlansýra) mest notaða sýklalyfið.
  Ályktanir: Sýkingar, einkum öndunarfærasýkingar, eru mjög algengar meðal 18 mánaða barna og nær öll börn á þessum aldri fá einhver einkenni um sýkingu á eins mánaðar tímabili yfir vetrarmánuðina. Sýkingar eru að jafnaði skammvinnar og foreldrar geta í flestum tilvikum sinnt börnunum sjálf. Breiðvirk sýklalyf virðast enn vera fyrsti valkostur ávísana á sýklalyf. Notkun hljóðhimnuröra er algeng. Foreldrar á höfuðborgarsvæðinu leita oftar til sérfræðinga en fólk á landsbyggðinni. Upplýsingar um sýkingamynstur og úrræði foreldra við einföldum sýkingum geta skipt máli við fræðslu til almennings og við skipulag annarra lýðheilsuaðgerða.

Samþykkt: 
 • 12.5.2017
URI: 
 • http://hdl.handle.net/1946/27546


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
gudrun_vidarsdottir_BS.pdf2.32 MBOpinnHeildartextiPDFSkoða/Opna
[Untitled] (1).pdf29.93 kBLokaðurPDF