Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/27547
Markmið þessarar rannsóknar var að kanna upplifun og viðhorf starfsmanna Íslandsanka
gagnvart nýju vinnurými sem nefnist verkefnamiðuð vinnuaðstaða með hliðsjón af
fræðum breytingastjórnunar og vinnuumhverfa. Höfuðstöðvar bankans fluttu í nýtt
húsnæði í lok árs 2016 en bankinn var til húsa á Kirkjusandi til margra ára. Fyrrum
höfuðstöðvar Íslandsbanka á Kirkjusandi höfðu legið undir miklum skemmdum vegna
raka og myglusvepps og í kjölfarið var ákveðið að flytja starfsemina yfir í Norðurturninn
í Kópavogi. Í nýjum höfuðstöðvum er vinnuumhverfið töluvert breytt frá því sem var en
nánast enginn starfsmaður er með fast sæti lengur heldur getur starfsfólkið athafnað sig
með tilliti til þeirra verkefna sem það er að vinna hverju sinni. Vinnuaðstaðan býður upp
á fjölbreyttari möguleika og geta starfsmenn valið sér annars konar rými eins og
hópvinnurými og einbeitingarrými. Einnig geta þeir sest við hefðbundna vinnustöð í
opnum vinnurýmum eins og var fyrir breytingar. Það sem vakti áhuga höfundar var að
heyra skoðanir, upplifun og viðhorf starfsmanna gagnvart því að starfa í nýju
vinnuumhvefi.
Við gerð rannsóknarinnar var notast við eigindlega rannsóknaraðferð með
hálfopnum viðtölum. Þátttakendur voru fjórir núverandi starfsmenn bankans sem gátu
miðlað reynslu sinni af nýja vinnuumhverfinu. Markmið rannsóknarinnar var að skoða
mannlega þáttinn í breytingaferlinu með hliðsjón af fræðum breytingastjórnunar ásamt
þeim eiginleikum sem felast í nýju vinnurými.
Helstu niðurstöður rannsókninnar gefa til kynna að viðmælendurnir eru fremur
jákvæðir gagnvart breytingunum og nýja fyrirkomulaginu. Hægt er að stjórna betur áreiti
á vinnustaðnum þar sem vinnurýmið býður upp á fjölbreyttari valmöguleika en áður.
Frelsi starfsmanna er mun meira í þeim skilningi að þeir geta athafnað sig með tilliti til
þeirra verkefna sem þeir eru að vinna hverju sinni. Viðmælendur höfðu kynnst fleiri
samstarfsfélögum á undanförnum mánuðum en á móti höfðu djúp tengsl við nákomna
vinnufélaga minnkað í ákveðnum tilfellum. Nýja fyrirkomulagið styður einnig við
hagkvæmari vinnubrögð hvað varðar pappírsnotkun og nýtingu vinnustöðva og er
breytingin á heildina litið hagkvæm fyrir bankann út frá rekstrarlegum sjónarmiðum.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
BSritgerð-lokaskil.skemman.pdf | 651,15 kB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna | |
Skemman_yfirlysing_13.pdf | 82,78 kB | Lokaður | Yfirlýsing |