is Íslenska en English

Lokaverkefni (Bakkalár)

Háskóli Íslands > Heilbrigðisvísindasvið > B.S. verkefni - Heilbrigðisvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/27549

Titill: 
 • Blóðsýkingar af völdum S. aureus á Landspítala. Árin 2010-2016.
Námsstig: 
 • Bakkalár
Útdráttur: 
 • Inngangur: Staphylococcus aureus er algengur og alvarlegur sýkill í mönnum og getur valdið fjölda mismunandi sýkinga. Bakterían þrífst vel á yfirborði dauðra hluta, sem gerir hana að kjörinni spítalasýkingu. Jafnframt finnst hún í eðlilegri flóru um þriðjung manna, ýmist á húð, í nefi eða nefkoki. Bakterían er ein algengasta orsök blóðsýkinga á vesturlöndum, en nýgengi S. aureus blóðsýkinga (SAB) hefur farið hækkandi samfara aukinni þörf á heilbrigðisþjónustu. Blóðsýking getur fylgt því að bakterían dreifist um líkamann frá upphafsstað og getur einnig leitt til sýklasóttar (e. sepsis), sem er svar hýsils við sýkingunni. Sýklasótt getur leitt til losts (e. septic shock), sem hefur um 40% dánartíðni á spítala. Því eru SAB, eins og aðrar blóðsýkingar, alvarlegar og skiptir því miklu að réttur orsakavaldur sé greindur og réttri meðferð beitt. Fyrir tíma sýklalyfja var dánartíðni þeirra sem fengu SAB um 80% og er enn á bilinu 14-27%.
  Efniviður og aðferðir: Rannsóknin náði til þeirra jákvæðu blóðræktana fyrir S. aureus sem bárust frá Landspítala (LSH) árin 2010-2016 og eingöngu í einstaklingum, sem höfðu náð 18 ára aldri. Almennum upplýsingum um aldur, kyn, nýgengi og dánartíðni var safnað. Sjúklingar voru flokkaðar eftir því hvar þeir sýktust, hver uppspretta sýkingar var, alvarleiki sýkingar var skoðaður, upplýsingar um undirliggjandi sjúkdóma, áhættuþætti og aðskotahluti voru einnig skráðar. Ályktað var um gæði meðferðar út frá tegund sýklalyfs og lengd meðferðar. Kannað var hvort sjúklingar gengust undir hjartaómun og voru allar blóðræktanir á innlagnartímanum skoðaðar. Þá var upplýsingum um aðrar jákvæðar S. aureus ræktanir sem aflað var í tengslum við jákvæða blóðræktun einnig safnað.
  Niðurstöður: Alls voru 648 jákvæðar blóðræktanir fyrir S. aureus á Íslandi á árunum 2008-2016. Á rannsóknartímabilinu var unnt að rannsaka 374 tilfelli í 360 einstaklingum. Nýgengi SAB á árunum 2010-2016 var 28,8 per 105 persónuár, heildardánartíðni eftir 30 daga var 12,1% sem jókst í 20,16% eftir 90 daga. Karlar voru í meirihluta (66,4%) og var miðgildi aldurs 67 ár. Flestar sýkingar tengdust heilbrigðiskerfinu (35,5%) og aðskotahlutir voru algengustu uppsprettur sýkinganna, eða í 22,3% tilfella. Meirihluti sjúklinga (55,1%) var meðhöndlaður með upphafsmeðferð (e. emperic) með virkni gegn S. aureus og meirihluti sjúklinga (64,0%) fékk ákjósanlega eða fullnægjandi endanlega meðferð, sem er hækkun miðað við fyrri rannsóknir. Í 223 (59,9%) tilfellum var framkvæmd hjartaómun og 46 (12,3%) tilfelli af hjartaþelsbólgu voru greind á rannsóknartímabilinu.
  Ályktanir: Nýgengi á rannsóknartímabilinu breyttist ekki marktækt miðað við rannsókn sem gerð var á Íslandi 1995-2008. Nýgengið var hærra en þekkist samanburðarlöndum. Ekki var marktækur munur á dánartíðni eftir 30 daga á milli rannsókna. Eins og sjá má á dánartíðninni er um alvarlega sýkingu að ræða, þrátt fyrir að næstum tveir af hverjum þremur fengi ákjósanlega eða fullnægjandi meðferð. Dánartíðnin í þessari rannsókn er þó heldur lægri en margar erlendar rannsóknir hafa sýnt. Ástæður þessarar lágu dánartíðni eru ekki ljósar. Í flestum tilfellum var óskað eftir ráðgjöf smitsjúkdómalækna. Því miður voru nokkrir vankantar á því að blóð væri ræktað þangað til að neikvæð ræktun lág fyrir.

Samþykkt: 
 • 12.5.2017
URI: 
 • http://hdl.handle.net/1946/27549


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
Aegir_Eythorsson_Blodsykingar_af_voldum_S.aureus.pdf661.27 kBOpinnHeildartextiPDFSkoða/Opna
Skemman_Stafesting_AEGIRE.pdf274.1 kBLokaðurPDF