Please use this identifier to cite or link to this item: https://hdl.handle.net/1946/27562
Inngangur: Ristil- og endaþarmskrabbamein er þriðja algengasta krabbameinið á Íslandi hjá bæði körlum og konum. Skurðaðgerð gegnir lykilhlutverki í meðferð ristil- og endaþarmskrabbameins en aðgerðin er umfangsmikil og fylgikvillar því algengir. Vísir að gæðaskráningu er komin í heilsugátt Landspítala og mun verkefnið meta hvort hægt sé að nota gögn úr henni og hvort samanburður við sænsk sjúkrahús sé mögulegur. Markmið rannsóknarinnar er að meta meðferð og tíðni fylgikvilla við brottnám ristils og endaþarms á Íslandi hjá sjúklingum sem greindust árin 2014 og 2015 borið saman við sjúkrahús á Uppsala-Örebro svæðinu í Svíþjóð (UÖS).
Efni og aðferðir: Rannsóknin tók til allra sjúklinga sem samkvæmt Krabbameinsskrá Íslands voru greindir með ristil- og endaþarmskrabbamein frá ársbyrjun 2014 til lok árs 2015. Upplýsingar um greiningardagsetningu, stigun sjúklinga og kyn voru fengnar frá Krabbameinsskrá en upplýsingar um meðferð og fylgikvilla fengust úr sjúkrarskrárkerfi og Orbit skurðstofukerfi Landspítala. Þær breytur sem notaðar voru í rannsókninni voru skráðar á skráningareyðublöð í gegnum Heilsugátt Landspítala. Eyðublöðin sem notuð voru í rannsókninni voru byggð á sambærilegum sænskum eyðublöðum. Við samanburðinn var notað Pearson kí-kvaðrat marktektarpróf.
Niðurstöður: Í þessum samanburði voru 345 tilfelli frá Íslandi og 2767 tilfelli frá UÖS. Íslensk tilfelli hafa sjaldnar hlotið fullnægjandi stigun fyrir meðferð borið saman við UÖS, p=0.010 fyrir ristilkrabbamein árið 2015 og p=0.004 fyrir endaþarmskrabbamein árið 2014. Hlutfallslega færri fóru í skurðaðgerð hér á Íslandi í tilfellum ristilkrabbameina (p<0.001; ár 2014 og p=0.002; ár 2015). Hlutfallslega fleiri fóru í skurðaðgerð með kviðsjá fyrir ristilkrabbamein bæði árin á Íslandi (p=0.002; 2014 og p<0.001; ár 2015) og árið 2015 fyrir endaþarmskrabbamein (p=0.002). Tíðni fylgikvilla fyrir öll tilfelli ristil- og endaþarmskrabbameina á Íslandi árið 2014 og 2015 var 55%. Fylgikvillar voru algengari á Íslandi í tilfellum ristilkrabbameina fyrir valaðgerðir bæði árin og fyrir bráðaaðgerðir 2014, (p<0.001; valaðgerð 2014, p<0.001; valaðgerð 2015 og p=0.004; bráðaaðgerð 2014). Fyrir endaþarmskrabbamein fannst marktækur munur á fjölda fylgikvilla en þeir voru fleiri á Íslandi borið saman við UÖS fyrir 2014 (p<0.001). Þegar leki á samtengingu og sárrof var skoðað fannst einungis marktækur munur á endaþarmskrabbameinum árið 2014 þar sem tíðni leka á samtengingu var algengari á Íslandi (p=0.002). Enginn marktækur munur fannst á tíðni endurinnlagna eða andláta innan 30 daga frá aðgerð.
Ályktanir: Þessi rannsókn sýnir að gæðaskráning er vel möguleg gegnum eyðublöð heilsugáttar Landspítala og að samanburður við Svíþjóð er einnig gagnlegur. Skráningin var afturvirk og því oft erfitt að nálgast upplýsingar sem voru illa skráðar í sjúkraskrá. Það sýnir mikilvægi þess að koma upp gæðaskráningu þar sem upplýsingarnar eru skráðar framvirkt. Tíðni fylgikvilla í heild var há á Íslandi miðað við UÖS og aðrar rannsóknir. Leki á samtengingu, enduraðgerðir, endurinnlagnir og andlát voru þó sambærileg við UÖS og aðrar rannsóknir. Samanburðinum við UÖS skal taka með fyrirvara þar sem skráningareyðublöð voru ekki eins og sum gögn á Íslandi var ábótavant.
Filename | Size | Visibility | Description | Format | |
---|---|---|---|---|---|
Einar Bragi Árnason_Fylgikvillar aðgerða hjá sjúklingum með ristil- og endaþarmskrabbamein.pdf | 1,23 MB | Open | Heildartexti | View/Open | |
File0002.PDF | 497,42 kB | Locked |