is Íslenska en English

Lokaverkefni (Bakkalár)

Háskóli Íslands > Heilbrigðisvísindasvið > B.S. verkefni - Heilbrigðisvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/27565

Titill: 
 • Staphylococcus capitis á Vökudeild Landspítala. Ífarandi sýkingar, útbreiðsla og sýklalyfjanæmi
Námsstig: 
 • Bakkalár
Útdráttur: 
 • Inngangur. Sumarið 2014 greindist blóðsýking af völdum kóagúlasa neikvæðs stafýlókokks (KNS) í fyrirbura fæddum eftir 28 vikna meðgöngu á Vökudeild Landspítala. Barnið fékk vancomycin meðferð og virtist svara lyfinu en veiktist aftur stuttu seinna. Aftur ræktuðust KNS úr blóði og eftir sérstakar rannsóknir kom í ljós að bakterían var fjölónæmur S. capitis með oxacillin ónæmi og dulið vancomycin misnæmi. Sérstakur klónn af S. capitis, NRCS-A, sem er meticillin og gentamicin ónæmur, hefur fundist á nýburagjörgæslum víða um heim og veldur síðkomnum blóðsýkingum í nýburum, sérstaklega mjög léttum fyrirburum. Markmið þessarar rannsóknar var að gera samantekt á klínískum upplýsingum nýbura með S. capitis í blóði á árunum 2008-2016. Einnig að gera samantekt á niðurstöðum skimana fyrir meticillin ónæmum S. capitis á nýburum, starfsfólki og umhverfi Vökudeildar á tímabilinu apríl – október 2016. Í þriðja lagi var sýklalyfjanæmi og vancomycin misnæmi kannað á S. capitis frá ofangreindum sýnum og blóðsýnum nýbura Vökudeildar.
  Efniviður og aðferðir. Úttekt var gerð úr þjónustugagnagrunni Sýkla- og veirufræðideildar á öllum KNS sem ræktuðust úr blóði og örverufríum vefjum á tímabilinu 01.01.2008-31.12.2016. Búið var að tegundargreina framangreinda KNS, með MALDI-TOF, til að finna S. capitis og framkvæma kjarnsýrumögnun til að greina NRCS-A klóninn. Klínískum upplýsingum um nýburana var safnað úr rafrænu sjúkraskrárkerfi LSH (Sögu) og úr Vökudeildarskrám. Niðurstöðum skimana var safnað úr þjónustugagngagrunni Sýkla- og veirufræðideildar. Næmispróf á S. capitis úr blóð- og skimunarsýnum voru framkvæmd með 11 mismunandi sýklalyfjum, auk vancomycin misnæmisprófs á völdum sýnum.
  Niðurstöður. 21 nýburi voru með S. capitis í blóðræktunum á tímabilinu, þar af 20 með meticillin og gentamicin ónæma S. capitis. Af öllum nýburunum voru átta með blóðsýkingu samkvæmt alþjóðlega viðurkenndum skilgreiningum. Sautján nýburar fengu lyfjameðferð við mögulegri sýkingu og sextán af þeim fengu vancomycin. Átján nýburar voru fyrirburar og ellefu þar af ákaflega miklir fyrirburar. Niðurstöður skimana sýndu að meticillin og gentamicin ónæmir S. capitis voru til staðar á húð hjá um 20% af öllum nýburum sem skimaðir voru. S. capitis fannst einnig á húð 20% starfsfólks Vökudeildar og á mörgum stöðum í umhverfi deildarinnar. Allir S. capitis sem prófaðir voru virtust misnæmir fyrir vancomycini. Bráðabirgðaniðurstöður kjarnsýrumögnunar hafa sýnt að a.m.k. sjó S. capitis úr blóðsýnum nýburanna voru NRCS-A klónninn og að þrír til viðbótar tilheyrðu mögulega þessum klón. NRCS-A hafði líka greinst hjá 21 af 72 S. capitis úr skimun nýbura, hjá tveim S. capitis úr umhverfissýnum og einum frá starfsfólki. Niðurstöður næmisprófa sýndu að 24 af 25 S. capitis úr blóðsýnum nýburanna voru ónæmir fyrir gentamicini og oxacillini. Einnig voru allir S. capitis sem prófaðir voru úr skimunarsýnum oxacillin og gentamicin ónæmir.
  Ályktanir. Meticillin og gentamicin ónæmur S. capitis með vancomycin misnæmi er algengur sýkingavaldur á Vökudeild Landspítala, sérstaklega hjá mjög léttum fyrirburum og finnst einnig á húð nýbura og starfsfólks og í umhverfi Vökudeildar. Heimsfaraldurs NRCS-A klóninn hefur verið staðfestur í öllum þessum sýnaflokkum og er því sennilega orðinn landlægur á Vökudeild. Hann veldur síðkomnum blóðsýkingum hjá nýburum, sem eru mögulega alvarlegri en sýkingar af völdum annarra KNS. Innleiða ætti vancomycin misnæmispróf í reglubundnum næmisprófum sem framkvæmd eru á staphylokokkum úr jákvæðum blóðræktunum frá Vökudeild. Einnig ætti að hafa S. capitis í huga þegar velja á sýklalyfjameðferð, því ef S. capitis er sýkingarvaldur er nauðsynlegt að gefa nægilega háa skammta af vancomycini.

Samþykkt: 
 • 12.5.2017
URI: 
 • http://hdl.handle.net/1946/27565


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
BS johanna drofn stefansdottir final.pdf807 kBLokaður til...12.05.2020HeildartextiPDF
skemman skannað skjal.pdf396.47 kBLokaðurPDF