is Íslenska en English

Lokaverkefni (Bakkalár)

Háskóli Íslands > Heilbrigðisvísindasvið > B.S. verkefni - Heilbrigðisvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/27569

Titill: 
 • Krabbamein í leghálsi á Íslandi 1987-2016
Námsstig: 
 • Bakkalár
Útdráttur: 
 • Inngangur: Á Íslandi greinast árlega um 16 konur með leghálskrabbamein. Sjúkdómurinn orsakast af veiru sem nefnist HPV (e. human papilloma virus) og smitast við kynmök. Leghálskrabbamein eru í langflestum tilfellum af flöguþekjuuppruna. Meðferð fer eftir stigun krabbameinsins við greiningu en algengast er að framkvæma skurðaðgerð ef krabbameinið greinist nógu snemma. Á Íslandi hefur farið fram skipulögð leit á forstigum leghálskrabbameina frá árinu 1964 og síðan hún hófst hefur nýgengi og dánartíðni sjúkdómsins lækkað verulega. Klínískir þættir leghálskrabbameins hafa lítið verið rannsakaðir á Íslandi og ekki liggja fyrir miklar upplýsingar um áhrif leghálsskimunar á framgang sjúkdómins. Rannsókn þessi gekk út á að fá yfirsýn yfir sjúkdóminn hér á landi með áherslu á klíníska þætti hans en einnig að skoða leitarsögu frumustroka þeirra kvenna sem greindust.
  Efni og aðferðir: Rannsóknin var afturskyggn og náði til allra kvenna sem greindust með leghálskrabbamein á Íslandi á árunum 1987-2016. Klínískar upplýsingar um sjúklingana fengust úr sjúkraskrám, aðgerðarlýsingum, meinafræðisvörum og myndgreiningarsvörum. Leitarsaga kvennanna fékkst frá Leitarstöð Krabbameinsfélags Íslands.
  Niðurstöður: Alls greindust 441 kona með leghálskrabbamein á rannsóknartímabilinu, að meðaltali 14,7 konur á ári. Meðalaldur við greiningu var 45,6 ár og greindust flestar konur úr aldurshópnum 34-39 ára. Á rannsóknartímabilinu lækkaði meðalaldur við greiningu um 4 ár. 40% kvennanna höfðu einkenni sem leiddu til greiningar, oftast blæðingar af einhverjum toga. Konur sem greindust vegna einkenna voru að meðaltali 13,3 árum eldri en þær sem greindust einkennalausar. Sjúkdómurinn greindist oftast í uppvinnslu á óeðlilegu frumustroki (49,7%), ýmist við keiluskurð eða við sýnatöku í leghálsspeglun. Flest krabbameinin voru af flöguþekjuuppruna (71,0%) en næst algengust voru kirtilþekjukrabbamein (20,9%). Sjúkdómurinn var staðbundinn við greiningu í 76,6% tilfella en vaxinn út fyrir leghálsinn hjá 23,4%. Marktækt fleiri greindust með æxli vaxið út fyrir legháls á seinni hluta rannsóknartímabilsins. Um 71% fóru í skurðaðgerð en um helmingur fór í geislameðferð með eða án krabbameinslyfja. Á rannsóknartímabilinu greindust 12% með endurkomu krabbameinsins að miðgildi 14 mánuðum frá lok meðferðar. Einkenni sjúklings leiddu til greiningar endurkomu í flestum tilfellum (52,7%) en rúmlega þriðjungur greindist við reglulegt eftirlit. Þær sem sinntu sinni leghálsskimun vel (0-2 ár milli stroka) eða sæmilega (3-5 ár) greindust á stigi I í tæplega 90% tilfella. Af þeim sem mættu illa (6-15 ár milli stroka) eða mjög illa/ekkert (>15 ár) greindust um 40% með sjúkdóm vaxinn út fyrir legháls. Fimm ára lifun fyrir allar greindar konur á tímabilinu var 77,7% og marktækur munur var á lifun sjúklinga á fjórum mismunandi stigum leghálskrabbameins. Auk stigs við greiningu höfðu aldur og greiningarár sjálfstæð áhrif á horfur.
  Ályktun: Nýgengi, aldursdreifing og heildarhorfur sjúklinga eru sambærilegar við nágrannalönd. Meðalaldur kvenna við greiningu lækkaði á rannsóknartímabilinu og konur greindust með lengra genginn sjúkdóm í lok tímabilsins. Horfur eru beint tengdar stigun en tengjast einnig aldri og greiningarári. Þátttaka í leghálsskimun hefur áhrif á stigun við greiningu.

Samþykkt: 
 • 12.5.2017
URI: 
 • http://hdl.handle.net/1946/27569


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
Dora.Gudmundsdottir_leghalskrabbamein.pdf1.39 MBLokaður til...01.06.2020HeildartextiPDF
yfirlising.pdf1.34 MBLokaðurFylgiskjölPDF