is Íslenska en English

Lokaverkefni (Bakkalár)

Háskóli Íslands > Heilbrigðisvísindasvið > B.S. verkefni - Heilbrigðisvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/27577

Titill: 
  • Fæðing eftir fyrri keisaraskurð. Hvaða þættir auka líkurnar á endurteknum keisaraskurði?
Námsstig: 
  • Bakkalár
Útdráttur: 
  • Inngangur: Síðastliðna áratugi hefur tíðni keisaraskurða vaxið mjög víða um heim og er það mikið áhyggjuefni, aðallega vegna meiri hættu á fylgikvillum í tengslum við fæðingu með keisaraskurði en fæðingu um leggöng. Rík ástæða þessarar vaxandi tíðni eru endurteknir keisaraskurðir hjá konum sem áður hafa fætt með keisaraskurði. Samkvæmt fyrri rannsóknum geta allt að þrjár af hverjum fjórum þessara kvenna fætt um leggöng ef þær reyna á annað borð. Því er mikilvægur hluti þess að lækka tíðni keisaraskurða að ráðleggja konum að reyna leggangafæðingu eftir einn keisaraskurð ef engar frábendingar eru til staðar. Þó eru meiri líkur á fylgikvillum ef fæðing endar með bráðaaðgerð í samanburði við fæðingu með fyrirfram ákveðnum valkeisaraskurði og því er mikilvægt að ráðleggja konum í samræmi við þær líkur sem þær hafa á að takast leggangafæðing. Erlendar rannsóknir hafa varpað ljósi á ýmsa þætti sem hafa áhrif á líkur þess að leggangafæðing takist eftir fyrri keisaraskurð. Meðal þeirra þátta eru tegund og ábending fyrri keisaraskurðar. Markmið þessarar rannsóknar var að fá betri innsýn í hvernig fyrri keisaraskurður hefur áhrif á líkur þess að fæðing um leggöng takist hjá íslensku þýði.
    Efni og aðferðir: Rannsóknin var afturskyggn og náði til kvenna sem fæddu sína fyrstu tvo lifandi fullburða einbura á Íslandi á árunum 1997-2015, þann fyrri með keisaraskurði og þann seinni með keisaraskurði eða um leggöng. Upplýsingar um bakgrunnsbreytur og fæðingar rannsóknarþýðis fengust úr fæðingaskrá.
    Niðurstöður: Rannsóknin náði til 2190 kvenna. Eftir fyrri keisaraskurðinn fæddu 716 konur (33%) með valkeisaraskurði, 564 konur (26%) með bráðakeisaraskurði og 910 konur (41%) um leggöng. Alls reyndu 1474 konur (67%) fæðingu um leggöng sem tókst hjá 62% þeirra, en 38% þeirra fæddu með bráðakeisaraskurði. Konur sem fæddu með bráðakeisaraskurði í fyrri fæðingu og reyndu fæðingu um leggöng í næstu fæðingu voru marktækt líklegri til fæða með endurteknum keisaraskurði en konur sem fæddu áður með valkeisaraskurði (OR 2,89; 95% ÖB 2,08-4,09). Hlutfall þess að leggangafæðing takist eftir valkeisaraskurð jókst úr 79,8% í 81,1% ef valkeisaraskurðurinn var framkvæmdur vegna sitjandastöðu fósturs en lækkaði í 70,0% ef hann var framkvæmdur vegna annarra ábendinga. Aðeins um helmingi kvenna sem reyndu fæðingu eftir fyrri bráðakeisaraskurð vegna teppts framgangs á 1. eða 2. stigi fæðingar tókst að fæða um leggöng. Þó voru markækt minni líkur á endurteknum keisaraskurði ef tepptur framgangur var af völdum óeðlilegrar stöðu fósturs í samanburði við konur sem fóru í bráðakeisaraskurð af öðrum ástæðum (OR 0,59; 95% ÖB 0,41-0,84). Einnig voru marktækt minni líkur á endurteknum keisaraskurði ef fyrri bráðakeisaraskurður var framkvæmdur vegna fósturstreitu (OR 0,27; 95% ÖB 0,12-0,63) eða annarra ábendinga (OR 0,22; 95% ÖB 0,09-0,53) í samanburði við konur sem fóru í bráðakeisaraskurð af öðrum ástæðum.
    Ályktun: Niðurstöður rannsóknarinnar gefa betri innsýn í líkur á að leggangafæðing takist eftir fyrri keisaraskurð og geta því gagnast við ráðgjöf til kvenna á Íslandi varðandi val á fæðingarmáta eftir einn keisaraskurð.

Samþykkt: 
  • 12.5.2017
URI: 
  • http://hdl.handle.net/1946/27577


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
Andrea Björg Jónsd._Fæðing eftir fyrri keisaraskurð.pdf903.95 kBOpinnHeildartextiPDFSkoða/Opna
Yfirlýsing.pdf372.69 kBLokaðurPDF