Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/27585
Inngangur: Ductal carcinoma in situ (DCIS) er staðbundið brjóstakrabbamein sem myndast í þekjufrumum mjólkurganga. Langflest DCIS finnast við hópskimun þar sem konum er boðið að fara í brjóstamyndatöku (e. mammography) og greinast því fyrir tilviljun án klínískra einkenna. Meðferð DCIS byggist á ítarlegri vefjagreiningu, skurðaðgerð og svo jafnvel geislameðferð í kjölfarið. Ástæða meðferðar gegn DCIS byggist á áhættunni á að það þróist út í ífarandi brjóstakrabbamein. DCIS er annars í eðli sínu tiltölulega saklaust og ber með sér minniháttar skerðingu á lífslíkum. Þar sem tíðni DCIS hefur fjórfaldast síðan skipuleg hópleit hófst hafa vaknað áhyggjur um ofmeðferð. Markmið þessarar rannsóknar er að fá yfirlit yfir greiningu og meðferð DCIS á Íslandi á tímabilinu 2008-2014.
Efniviður og aðferðir: Úr Krabbameinsskrá Íslands fengust allar konur sem greindust með DCIS á árunum 2008-2014, samtals 110 konur. Upplýsingum úr sjúkraskrá var safnað saman á skráningarblað að sænskri fyrirmynd. Úr þessum upplýsingum var myndað gagnasett sem unnið var úr og borið saman við sænsk gögn. Sænsku gögnin komu úr útgefinni grein frá sænsku krabbameinsskránni um meðferð DCIS í Uppsala-Örebro svæðinu.
Niðurstöður: Hópskimun greindi 82% tilfella DCIS á tímabilinu og myndgreining var framkvæmd hjá 96% alls hópsins. Öllum einstaklingum var ráðlagt að fara í skurðaðgerð og fóru 51% í fleygskurð og 49% í brottnám. Varðeitlataka var framkvæmd í 61% tilvika. Þá fengu 30% einstaklinga viðbótarmeðferð og 27% af öllum hópnum geislameðferð. Samráðsfundir fyrir aðgerð voru haldnir í 44% tilvika en í 90% tilvika eftir aðgerð. Samanburður við Uppsala-Örebro svæðið leiddi í ljós að fleiri undirgangast myndgreiningu á Íslandi, æxli af kjarnagráðu 2 voru algengari í Svíþjóð og oftar var veitt geislameðferð í kjölfar fleygskurðar í Svíþjóð. Að öðru leyti var ekki marktækur munur á veittri meðferð milli landanna.
Ályktanir: Hlutfall fleygskurðar og brottnáms er aðeins frábrugðið frá öðrum vestrænum löndum. Hlutfall varðeitlatöku má teljast hátt en samræmdist klínískum leiðbeiningum. Borið saman við Svíþjóð er meðferðin í megindráttum eins. Mismunur myndgreiningar helgast líklega af mismunandi skráningu milli landanna. Mismunur kjarnagráðu milli landanna helgast fremur af mismunandi nálgun á greiningu gráðu 2 æxla frekar en eiginlegum mun í æxliseiginleikum. Þegar horft er til geislameðferðar eftir fleygskurð gæti munurinn stafað af því að sambærileg tilvik á Íslandi undirgangist frekar brottnám, en tölur um lokaaðgerðir á Íslandi styðja þá kenningu. Þá er DCIS fjölbreyttur hópur staðbundinna þekjufrumubreytinga sem hafa mismiklar líkur á að þróast út í ífarandi sjúkdóm. Staða þekkingar í dag er ekki nægjanlega góð til að greina á milli saklausra breytinga og forstigs ífarandi sjúkdóms og því er enn vandmeðfarið að áætla hvaða meðferð sé viðeigandi og hvaða meðferð flokkist undir ofmeðferð.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
Arnar.Snær_DCIS.a.Islandi.2008-2014.pdf | 1.36 MB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna | |
Staðfesting.skemman.pdf | 1.04 MB | Lokaður | Yfirlýsing |