is Íslenska en English

Lokaverkefni (Bakkalár)

Háskóli Íslands > Heilbrigðisvísindasvið > B.S. verkefni - Heilbrigðisvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/27586

Titill: 
 • Langtímaárangur hjá sjúklingum í ofþyngd eftir kransæðahjáveituaðgerð
Námsstig: 
 • Bakkalár
Útdráttur: 
 • Inngangur: Offita er almennt talin auka tíðni fylgikvilla eftir skurðaðgerðir. Rannsóknir á tengslum offitu við snemmkominn árangur opinna hjartaaðgerða eru þó misvísandi en sumar rannsóknir hafa sýnt sambærilega eða jafnvel lægri tíðni fylgikvilla. Langtímaárangur kransæðahjáveituaðgerða hjá sjúklingum í ofþyngd lítið verið rannsakaður og markmið rannsóknarinnar að bæta úr því.
  Efniviður og aðferðir: Afturskyggn rannsókn á 1755 sjúklingum sem gengust undir kransæðahjáveituaðgerð á Landspítala 2001-2013. Úr sjúkraskrám voru skráðir lýðfræðilegir- og áhættuþættir sjúklinga, þ.m.t. EuroSCORE-II, skammtíma fylgikvillar og 30 daga dánartíðni. Sérstaklega var leitað að eftirfarandi langtíma fylgikvillum; hjartaáfalli, heilablóðfalli, þörf á endurhjáveituaðgerð, kransæðavíkkun með eða án kransæðastoðnets og dauða (major adverse cardiac and cerebrovascular event, MACCE). Sjúklingunum var skipt upp í fjóra hópa eftir líkamsþyngdarstuðli (LÞS); i) kjörþyngd = 18,5-24,9 kg/m2 (n=393), ii) yfirþyngd = 25-29,9 kg/m2 (n=811), iii) ofþyngd = 30-34,9 kg/m2 (n=388) og iv) mikil ofþyngd = >35 kg/m2 (n=113). Sjúklingar með LÞS <18,5 voru aðeins 7 talsins og því ekki teknir með í tölfræðiúrvinnslu. Hinir hóparnir fjórir voru síðan bornir saman m.t.t. áhættu- og aðgerðartengdra þátta, fylgikvilla og lifunar en langtímalifun og MACCE-frí lifun var áætluð með aðferð Kaplan-Meier. Sjálfstæðir forspárþættir lifunar og MACCE voru fundnir með Cox-aðhvarfsgreiningu. Meðaltal eftirfylgdar var 5,6 ár og miðaðist eftirfylgd við 1. júlí 2014.
  Niðurstöður: Sjúklingar í ofþyngd reyndust marktækt yngri (67 ár fyrir mikla ofþyngd sbr. 61 ár fyrir kjörþyngd) og hlutfall karla hærra. Sjúklingar í ofþyngd (LÞS >30 kg/m2) höfðu oftar sykursýki, háþrýsting, blóðfituröskun, reykingasögu og tóku oftar β-blokka og statín. Einkenni og dreifing kransæðasjúkdóms var hins vegar sambærileg milli hópa, en sjúklingar í mikilli ofþyngd voru þó með lægra EuroSCORE-II en sjúklingar í kjörþyngd (1,6 sbr. 2,7, p=0,002). Aðgerðar- og tangartími var marktækt lengri hjá offeitum (LÞS >30 kg/m2) en sjúklingum í kjörþyngd sem og heildarlegutími, sem var 2 dögum lengri hjá sjúklingum í mikilli ofþyngd samanborið við yfirþyngd (p=0,0099). Tíðni snemmkominna fylgikvilla var sambærileg milli hópa, nema hvað vægar skurðsýkingar og aftöppun fleiðruvöka voru marktækt fátíðari hjá sjúklingum í mikilli ofþyngd. Dánartíðni innan 30 daga var sambærileg milli hópanna fjögurra, eða í kringum 2%. Langtímalifun var einnig sambærileg milli hópanna en heildarlifun 5 árum frá aðgerð var í kringum 90% (ÖB: 0,88–0,91) og 10 ára lifun 70% (ÖB: 0,70–0,76). MACCE sjúkdómsfrí 5 og 10 ára lifun reyndist einnig sambærileg milli hópa, eða í kringum 81% og 56% (p=0,7). Við aðhvarfsgreiningu reyndist LÞS hvorki sjálfstæður áhættuþáttur fyrir langtíma lifun (OR: 1,02, ÖB: 0,96–1,01) né heldur langtíma MACCE-frírri lifun (OR: 1, ÖB: 0,98 1.03).
  Ályktun: Sjúklingar í ofþyngd sem gangast undir kransæðahjáveitu eru yngri og með fleiri áhættuþætti kransæðasjúkdóms. Þegar leiðrétt var fyrir þessum þáttum í fjölbreytugreiningu reyndist líkamsþyngdarstuðull hvorki spá sjálfstætt fyrir um tíðni langtíma fylgikvilla né lifunar.

Samþykkt: 
 • 15.5.2017
URI: 
 • http://hdl.handle.net/1946/27586


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
Yfirlýsing.pdf692.99 kBLokaðurYfirlýsingPDF
Þórdís_Þorkelsdóttir_Langtímaárangur_hjá_sjúklingum_í_ofþyngd_eftir_kransæðahjáveituaðgerð.pdf1.04 MBOpinnHeildartextiPDFSkoða/Opna