Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/27588
Tilgangur: Gáttatif/-flökt (e. atrial fibrillation/flutter, AF) er algengasta viðvarandi hjartsláttartruflunin og getur haft mikil einkenni í för með sér. Rafvending er mikilvægur hluti í meðferð við þessum sjúkdóm, ásamt blóðþynningu og hraða- og taktstillandi lyfjum. Nýlegt MB-LATER skor má hugsanlega yfirfæra á sjúklinga sem gengist hafa undir rafvendingu en það var hannað til þess að meta áhættu þeirra sem hafa haldist í sínus takti í eitt ár eftir brennsluaðgerð á að fara aftur í AF. Þetta áhættumat tekur tillit til kyns, greinrofs, stærðar vinstri hjartagáttar, gerðar af AF og hvort endurkoma þess hafi átt sér stað innan 90 daga eftir aðgerð. Markmið rannsóknarinnar var tvíþætt: Annars vegar að skoða hversu lengi AF sjúklingar héldust í sínus takti eftir rafvendingu. Hins vegar að meta hvaða þættir hafa áhrif á taktstillingu og hvort MB-LATER hafi forspárgildi um viðhald sínus takts eftir rafvendingu.
Efni og aðferðir: Rannsóknin var afturskyggn og náði til allra þeirra sem komu í sína fyrstu rafvendingu á LSH á árunum 2014 og 2015. Tímalengd þessara sjúklinga í sínus takti var reiknuð út frá dagsetningu rafvendingar og hvenær staðfest var hvort viðkomandi sjúklingur væri farinn aftur í AF eða hvort hann væri í enn sínus takti. Upplýsingar um lyfjameðferð og MB-LATER skor var reiknað út frá upplýsingum úr sjúkraskrám.
Niðurstöður: Af 438 sjúklingum voru 293 (66,9%) karlar og 145 (33,1%) konur. Meðalaldur þeirra var 67,6 ± 12,4 ár. Eftir sex mánuði voru 47,3% í sínus takti en 34,8% eftir eitt ár. Stækkun á vinstri gátt (≥47 mm), metið með ómskoðun, hafði neikvætt forspárgildi fyrir tímalengd sjúklinga í sínus takti en eftir eitt ár voru 23,2% af þeim með stækkaða gátt enn í sínus takti á móti 38,4% hjá þeim með eðlilega stóra gátt (p<0.01). Tímalengd AF fyrir rafvendingu hafði einnig forspárgildi, en 6,2% þeirra með AF sem hafði varað í ≥7 daga fyrir rafvendingu voru í sínus takti eftir ár á móti 39,8% þeirra með AF sem hafði varað í <7 daga (p<0.0001). Þættir eins og kyn, greinrof eða aldur höfðu hvert um sig ekki marktæk áhrif á tímalengd í sínus takti, en hærra MB-LATER skor hafði neikvætt forspárgildi. Hlutfall sjúklinga í sínus takti eftir eitt ár var 51,1% af þeim með 0-1 stig, 19,7% af þeim með 2-3 stig og 0% þeirra með 4-5 stig (p<0.0001). Eftir að hafa leiðrétt fyrir breytunni „endurkoma AF innan 90 daga“ voru 36,7% þeirra með 0-2 stig í sínus takti eftir eitt ár á móti 6,1% þeirra með 3-4 stig (p<0.0001). Konur voru hlutfallslega á fleiri lyfjum en karlar en lyfjameðferð hafði ekki marktæk áhrif á tímalengd í sínus takti.
Ályktanir: Sjúklingar með stækkun á vinstri gátt ≥47 mm eru ólíklegri til að haldast í sínus takti til lengri tíma miðað við þá sem hafa eðlilega stóra vinstri gátt. Eins eru þeir sjúklingar sem hafa verið í AF í ≥7 daga ólíklegri til að haldast í sínus takti til lengri tíma miðað við þá sem hafa verið í AF í <7 daga. Rúmlega þriðjungur sjúklinga reyndist vera í sínus takti eftir ár en MB-LATER skorið virðist gefa góða vísbendingu um hversu líklegir AF sjúklingar eru til þess að haldast í sínus takti til lengri tíma og gæti verið gagnlegt til þess að hjálpa til við að meta hvort þeir sem hrökkva úr takti gætu haft gagn af annarri rafvendingu eður ei.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
Unnar Oli Olafsson BS.pdf | 1,24 MB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna | |
Yfirlýsing.pdf | 168,93 kB | Lokaður | Yfirlýsing |