is Íslenska en English

Lokaverkefni (Bakkalár)

Háskóli Íslands > Heilbrigðisvísindasvið > B.S. verkefni - Heilbrigðisvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/27589

Titill: 
 • Vancomycin meðferðir hjá börnum á Barnaspítala Hringsins á tímabilinu 2012-2016. Hvernig er mælingum á serumgildi háttað, hvernig eru þær notaðar og er ástæða til að endurskoða skammta?
Námsstig: 
 • Bakkalár
Útdráttur: 
 • Inngangur: Þegar hafin er meðferð með vancomycini er mikilvægt að serumgildi þess haldist á bilinu 10-20 mg/L til að stuðla að bakteríudrápi. Undanfarin ár hafa erlendar rannsóknir bent til þess að ráðlagðir skammtar dugi ekki til þess að ná meðferðarþéttni vancomycins í sermi. Þá þarf að hækka skammtana og getur það tekið nokkra daga af síhækkandi lyfjaskömmtum til að ná viðunandi þéttni í sermi. Þessi seinkun leiðir til vanmeðhöndlunar á sýkingunni á meðan gildið liggur undir viðmiðunarmörkum auk þess sem hún stuðlar að þróun ónæmis hjá bakteríum gegn vancomycini. Markmið rannsóknarinnar var að rannsaka skammtastærðir og mæld vancomycin gildi hjá skjólstæðingum Barnaspítala Hringsins á tímabilinu 2012-2016.
  Efni og aðferðir: Rannsóknin var afturskyggn og náði til allra barna á Barnaspítala Hringsins undir 18 ára sem fengu amk eina vancomycingjöf í æð á fimm ára tímabilinu 2012-2016. Upplýsingar um lyfjagjafir og lyfjamælingar fengust frá Hagdeild Landspítalans og vökudeildarskrám Barnaspítalans en öðrum klínískum upplýsingum var safnað úr rafrænum sjúkraskrám úr sjúkraskrárkerfi Landspítalans.
  Niðurstöður: Alls 105 börn fengu 163 meðferðir með vancomycini á tímabilinu 2012-2016 á Barnaspítala Hringsins. Meðalstærð upphafsskammts á sólarhring var 24.8 mg/kg hjá börnum á vökudeild en 39.7 mg/kg hjá börnum á öðrum deildum Barnaspítalans og Gjörgæsludeild LSH. Mælingar á sermisstyrk vancomycins voru framkvæmdar í 105 meðferðum og heildarfjöldi lággildismælinga var 275. Þarf af lágu 56.0%(n=153) utan meðferðarmarkanna 10-20 mg/L og þar af lágu 144 lággildi undir 10 mg/L en 10 lággildi yfir 20 mg/L. Í 44.0% tilvika voru mæld lággildi innan viðmiðunarmarka. Í 27% meðferða (n=44) urðu breytingar á skammtastærðum. Skammtabreytingar voru 50 talsins og þar af voru 38(76.0%) skammtahækkanir. Eina marktæka skýrirbreytan úr niðurstöðum tvíkosta aðhvarfsgreiningarlíkans voru skammtar af stærðinni 40-50 mg/kg/sólarhring en sú skammtastærð jók marktækt líkurnar á því að mælast með lággildi innan viðmiðunarmarka í fyrstu lággildismælingu (p=0.027, OR=6.70). Hvorki aðrar skammtastærðir né aldursflokkar gáfu marktækar niðurstöður á útkomu fyrstu lággildismælingar. Það reyndist ekki vera marktækur munur á hlutfalli þeirra barna með illkynja sjúkdóma með lággildi innan viðmiðunarmarka í fyrstu mælingu miðað við samanburðarhópinn (p=0.086) en hlutfallið hjá börnum með illkynja sjúkdóma var 11.8% samanborið við 34.9%.
  Ályktanir: Samkvæmt niðurstöðum rannsóknarinnar gefa núverandi upphafsskammtar á vancomycini lággildi sem liggja neðan við sett meðferðarmörk hjá meirihluta barna eða í 52.4% tilvika. Ef miða á við núverandi ráðleggingar um æskileg meðferðarmörk lággilda vancomycins í sermi, sem eru 10-20 mg/L, þarf að hækka sólarhringsskammtana til að ná settu marki. Frekari rannsókna er þörf til að kanna öryggi hærri skammta og möguleg eitrunaráhrif þeirra á nýrnastarfsemina hjá börnum.

Samþykkt: 
 • 15.5.2017
URI: 
 • http://hdl.handle.net/1946/27589


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
Vancomycin - BS ritgerðin.pdf1.21 MBOpinnHeildartextiPDFSkoða/Opna
Sbis-minolt17051208400.pdf228.73 kBLokaðurYfirlýsingPDF