en English is Íslenska

Thesis (Bachelor's)

University of Iceland > Heilbrigðisvísindasvið > B.S. verkefni - Heilbrigðisvísindasvið >

Please use this identifier to cite or link to this item: http://hdl.handle.net/1946/27592

Title: 
 • Title is in Icelandic Lifun og afdrif minnstu fyrirburanna 2007 - 2015
Degree: 
 • Bachelor's
Abstract: 
 • Abstract is in Icelandic

  Inngangur: Undanfarin ár hafa lífslíkur fyrirbura aukist umtalsvert, einkum minnstu fyrirburanna. Á það helst rætur að rekja til framfara í fæðingarhjálp og nýburagjörgæslu. Helstu vandamál sem fylgja því að fæðast mikið fyrir tímann eru langvinnur lungnasjúkdómur, heilablæðing, skemmdir á hvíta efni heilans, sjónskerðing vegna fyrirburaaugnsjúkdóms og fötlun. Markmið rannsóknarinnar var að kanna lifun og aðra útkomuþætti þeirra fyrirbura sem fæðst höfðu eftir 24 til 31 vikna meðgöngu og voru undir 1500 g við fæðingu síðastliðin 9 ár hér á landi. Jafnframt var tilgangur rannsóknarinnar að meta hvernig árangur Íslands væri í samanburði við önnur sambærileg lönd.
  Efniviður og aðferðir: Í gagnagrunni Vökudeildar Barnaspítala Hringsins (Vökudeildarskránni) fengust upplýsingar um þau börn sem höfðu fæðst eftir 24 til 31 vikna meðgöngu og voru undir 1500 g við fæðingu árin 2007-2015. Rannsóknartímabilinu var skipt í tvennt. Tímabilið 2007-2010 var annars vegar borið saman við tímabilið 2011-2015 á Íslandi. Hins vegar var fyrra tímabilið borið saman við önnur lönd, en upplýsingar um þau fengust úr nýlegri rannsókn (J Pediatr 2016;177:144-52).
  Niðurstöður: Rannsóknarhópurinn samanstóð af 204 börnum fæddum árin 2007-2015. Þar af voru 105 börn fædd á tímabilinu 2007-2010 og 99 á tímabilinu 2011-2015. Ekki var tölfræðilega marktækur munur á þeim þáttum sem skoðaðir voru milli tímabilanna. Hins vegar lækkaði fjöldi látinna barna úr 7 (6,7%) í 4 (4,0%) milli tímabila. Einnig var rúmlega tvöföld aukning á fjölda barna sem fengu alvarlega heilablæðingu (úr 4 (3,8%) í 9 (9,1%)). Jafnframt varð aukning á börnum sem fóru í aðgerð vegna fyrirburaaugnsjúkdóms. Hlutfallsleg lækkun varð á börnum sem greindust með langvinnan lungnasjúkdóm, skemmdir á hvíta efni heilans og þarmadrepsbólgu milli tímabilanna. Ísland var með næst hæstu hlutfallslega lifun barna (93%) miðað við önnur lönd, en einungis Japan var með hærri (95%). Hlutfall langvinns lungnasjúkdóms var næst hæst á Íslandi (27%), hæst var það í Bretlandi (32%) en lægst í Sviss (13%). Hlutfall barna sem fengu alvarlega heilablæðingu (gráðu III-IV) og/eða hvítaefnisskemmdir var svipað milli landa (7-15%). Sama átti við um fjölda fyrirbura sem fóru í aðgerð vegna fyrirburaaugnsjúkdóms fyrir utan hátt hlutfall í Japan (16%), annarsstaðar var það 2-4%.
  Ályktanir: Ísland er að standa sig vel, hér er lág dánartíðni og tiltölulega lágt hlutfall alvarlegra sjúkdómsgreininga. Þó gæti hlutfallsleg aukning á alvarlegri heilablæðingu verið visst áhyggjuefni sem þyrfti að skoða nánar.

Accepted: 
 • May 15, 2017
URI: 
 • http://hdl.handle.net/1946/27592


Files in This Item:
Filename Size VisibilityDescriptionFormat 
BS_EllenMaría.pdf1.19 MBOpenHeildartextiPDFView/Open
fylgiskjal.pdf320.56 kBLockedYfirlýsingPDF