is Íslenska en English

Lokaverkefni (Bakkalár)

Háskóli Íslands > Heilbrigðisvísindasvið > B.S. verkefni - Heilbrigðisvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/27594

Titill: 
 • Íhlutanir í fæðingu hjá eldri frumbyrjum 1997-2015
Námsstig: 
 • Bakkalár
Útdráttur: 
 • Inngangur: Meðalaldur kvenna við barnsburð í vestrænum ríkjum hefur farið stöðugt hækkandi síðastliðin 30 ár. Eftir því sem konur verða eldri eru meiri líkur á að þær hafi undirliggjandi sjúkdóma sem geta haft áhrif á meðgöngu og fæðingu, auk þess sem meðgöngusjúkdómar verða algengari. Fjölmargar erlendar rannsóknir sýna að tíðni íhlutana hækkar með hærri aldri mæðra og að þessi aukna tíðni sé umfram það sem skýrist af sjúkdómum móður. Svo virðist sem aldur móður sé því sjálfstæður áhættuþáttur fyrir íhlutunum. Markmið þessarar rannsóknar var að skoða hvernig tíðni íhlutana dreifist eftir aldri mæðra hér á landi og hvort tíðnin hjá eldri mæðrum sé umfram það sem skýrist af sjúkdómsgreiningum móður.
  Efni og aðferðir: Rannsóknin var afturskyggn og voru gögnin fengin frá Fæðingaskrá Landlæknisembættisins en þau náðu yfir allar fæðingar á Íslandi á árunum 1997-2015. Þýðið var takmarkað við frumbyrjur, einburafæðingar, 37-42 vikna meðgöngulengd og lifandi fædd börn. Þýðinu var skipt í konur án greininga, konur með háþrýsting og konur með sykursýki. Þær íhlutanir sem skoða átti voru keisaraskurður, áhaldafæðing og framköllun fæðingar. Við útreikninga á áhættu var aldursbilið 20-29 ára notað sem viðmið.
  Niðurstöður: Þýðið náði yfir 23573 fæðingar. Í hópnum án greininga voru 20841 mæður, 1151 höfðu háþrýsting og 588 sykursýki. Hjá hópnum án greininga kom fram hækkun á tíðni íhlutana og marktæk aukning á áhættu með hærri aldri mæðra fyrir allar íhlutanir nema áhaldafæðingar hjá konum 40 ára og eldri. Áhættan á framköllun fæðingar var 1,35 hjá konum 30-39 ára og 3,23 hjá konum 40 ára og eldri. Hjá konum 30-39 ára var áhættan 1,27 á áhaldafæðingu. Áhætta á keisaraskurði með fæðingarsótt var 1,25 hjá konum 30-39 ára og 2,55 hjá konum 40 ára og eldri. Áhætta á keisaraskurði án fæðingarsóttar var 2,02 hjá konum 30-39 ára og 8,05 hjá konum 40 ára og eldri. Svipuð dreifing var á tíðninni eftir aldri hjá mæðrum með háþrýsting og sykursýki en þar sem þetta voru lítil þýði voru niðurstöðurnar fyrir þessa tvo hópa að stórum hluta ekki marktækar.
  Ályktun: Tíðni íhlutana jókst með hærri aldri mæðra umfram það sem skýrist af sjúkdómsgreiningum móður. Aldur móður er því sjálfstæður áhættuþáttur fyrir íhlutunum en einnig gætu líffræðilegir þættir haft áhrif. Þessi aukna áhætta er í samræmi við það sem sést hefur erlendis.

Samþykkt: 
 • 15.5.2017
URI: 
 • http://hdl.handle.net/1946/27594


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
Hjordis Yr Bogad_Ihlutanir i faedingu.pdf487.51 kBOpinnHeildartextiPDFSkoða/Opna
BSc_yfirlysing.pdf272.6 kBLokaðurYfirlýsingPDF