is Íslenska en English

Lokaverkefni (Bakkalár)

Háskóli Íslands > Heilbrigðisvísindasvið > B.S. verkefni - Heilbrigðisvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/27597

Titill: 
 • Komur á Landspítala vegna Campylobacter sýkinga árin 2012-2016
Námsstig: 
 • Bakkalár
Útdráttur: 
 • Inngangur: Campylobacter eru litlar, Gram-neikvæðar, gormlaga og hreyfanlegar stafbakteríur. Til eru margar tegundir og er Campylobacter jejuni þeirra mikilvægust, enda algengasta orsök iðrasýkinga af völdum baktería í hinum vestræna heimi. Campylobacter er þannig mikilvæg baktería, bæði frá heilsufars- og fjárhagslegu sjónarmiði. Upplýsingar um sjúkrahúsainnlagnir vegna Campylobacter-sýkinga eru þó af skornum skammti.
  Markmið þessarar rannsóknar er að kanna hversu þungt Campylobacter sýkingar leggist á fólk (og þar með samfélagið í heild) á Íslandi, þ.e. hversu margir leiti á sjúkrahús vegna einkenna sinna og hversu umfangsmikla meðferð þeir fái þar, bæði hvað varðar rannsóknir, lyf og viðtöl.
  Efniviður og aðferðir: Kannaðir voru allir einstaklingar, sem greinst höfðu með jákvæða ræktun af Campylobacter sp. á Íslandi frá 1. janúar 2012 til 31. desember 2016. Upplýsingar, bæði um einstaklinga og stofna, fengust úr gagnagrunni (GLIMS) Sýklafræðideildar Landspítalans. Kannað var í sjúkraskráningakerfi Landspítalans (Sögu) hvort viðkomandi einstaklingar hefðu leitað á Landspítalann vegna Campylobacter-sýkingarinnar og ef svo var, voru skráðar í FileMaker og síðar fluttar yfir í Excel og tölfræðiforritið R til úrvinnslu, lýðfræðilegar upplýsingar, einkenni, lengd sjúkrahúsadvalar, hvaða rannsóknir voru framkvæmdar, hvaða meðferð veitt og hvort fram komu fylgikvillar.
  Niðurstöður: Alls greindust 555 einstaklingar með jákvæða ræktun fyrir Campyobacter sp. á Sýklafræðideild Landspítalans á rannsóknartímabilinu. Af þeim leituðu 195 (35%) á klínískar deildir Landspítalans vegna sýkingarinnar. Árið 2012 var nýgengi koma 10,1/100.000 íbúa og 11,4/100.000 íbúa árið 2016. Hæsta nýgengi koma var árið 2014: 16/100.000 íbúa. 194 einstaklingar voru með Campylobacter jejuni, en einn með Campylobacter coli.Sjúklingar voru á aldrinum 0-84 ára, 108 (55%) karlkyns og 87 (45%) kvenkyns. Alls voru 12% yngri en 15 ára, 74% 15-59 ára og 13% eldri en 60 ára. Af einstaklingunum 195 dvöldu 148 (76,%) skemur en sólarhring á spítalanum við fyrstu komu. Þeir 47 (24%), sem dvöldu meira en 24 tíma á spítalanum lágu að meðaltali inni í 2,5 sólahringa. Endurkomur voru 23. 60% þeirra einstaklinga höfðu dvalist skemur en átta klst. í fyrri komu. Flestar endurkomur voru árið 2015 (26%) og fæstar árið 2013 (13%). Mest var leitað á Landspítalann í júlí (26%) en fæstir komu í nóvember (2%). Jafnmörg tilfelli voru rakin til erlends og innlends smits, en 25 tilfelli (12,8%) voru af óvissum uppruna. Hvað einkenni varðar voru flestir, eða 82%, með kviðverki 49% með vatnskenndan niðurgang og 47% með hita yfir 37.5 °C skv. skráningu við komu á Landspítalann. Helstu greiningarpróf, fyrir utan hægðasýni, voru blóðprufur (blóðhagur, CRP, sölt, ofl.), tölvusneiðmyndir af kvið, blóðræktanir og ristilspeglanir. 76% reyndust með hækkað gildi af CRP og 36% með fjölgun kleyfkirninga. Kreatinin var hækkað í 21,0 % tilvika og 3 einstaklingar voru með hækkaðan lípasa (allt upp í 1535 U/L) Natríum var lækkað í 22,1% og kalíum í 13,3% tilvika. Tveir voru greindir með bráða brisbólgu og tveir með bráða nýrnabilun. Þrír einstaklingar fengu fylgigigtar (reactive arthritis) en enginn fjöltaugabólgu (Guillain-Barré) og enginn lést. Vökvi var gefinn hjá 63%, 18% fengu sýklalyf og 34% aðrar lyfjameðferðir innan Landspítalans. Af erlendu Campylobacter-stofnunum voru 86% ónæm fyrir cíprófloxacíni en aðeins 13% þeirra innlendu reyndust ónæmir. Aðeins 3 stofnar voru ónæmir fyrir erythrómýcini og tveir þeirra skráðir af erlendum og einn af óvissum uppruna.
  Ályktanir: Um þriðjungur þeirra sem greindust með staðfesta Campylobacter iðrasýkingu leituðu á Landspítala vegna sýkingarinnar. Fjórðungur þeirra dvaldist lengur en einn sólarhring á sjúkrahúsinu og var meðallengd dvalar í þeim tilvikum innan þess hóps 2,5 sólahringar. Sjúklingar gangast undir umtalsverðar og stundum kostnaðarsamar rannsóknir og meðferð. Hátt í helmingur sjúklinga (42,5%) fékk sýklalyf á einhverjum tímapunkti. Alvarlegir fylgikvillar voru sjaldgæfir og engin dauðsföll. Um 86% erlendra og 13% innlendra stofna voru ónæmir fyrir cíprófloxacíni og ekki er að sjá neina vísbendingu um breytingu á því á þessu 5 ára tímabili.

Samþykkt: 
 • 15.5.2017
URI: 
 • http://hdl.handle.net/1946/27597


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
BS_Asdis_H_Sigurdardottir.pdf2.32 MBOpinnHeildartextiPDFSkoða/Opna
skemma.pdf436.7 kBLokaðurYfirlýsingPDF