en English is Íslenska

Thesis University of Iceland > Heilbrigðisvísindasvið > B.S. verkefni - Heilbrigðisvísindasvið >

Please use this identifier to cite or link to this item: http://hdl.handle.net/1946/27599

Title: 
 • Title is in Icelandic Tilvísanir á göngudeild og í bráðaþjónustu BUGL
Submitted: 
 • May 2017
Abstract: 
 • Abstract is in Icelandic

  Inngangur: Raunveruleg þörf íslenskra barna og unglinga fyrir geðheilbrigðisþjónustu hefur lítið verið skoðuð á undanförnum árum. Markmið rannsóknarinnar var að kortleggja þann hóp sem vísað var á almenna göngudeild Barna- og unglingageðdeildar Landspítala (BUGL) árið 2013 og bera saman við börn og unglinga sem hlutu bráðaþjónustu BUGL sama ár. Rannsóknir á borð við þessa hafa verið gerðar í öðrum löndum og því var unnt að bera niðurstöður þeirra saman við okkar.
  Efni og aðferðir: Rannsóknin var afturskyggn með lýsandi þverskurðarsniði. Lýðfræðilegum og klínískum upplýsingum var safnað úr sjúkraskrám 152 barna og unglinga sem vísað var á almenna göngudeild BUGL árið 2013.
  Niðurstöður: Alls var 152 einstaklingum vísað á almenna göngudeild árið 2013, 79 drengjum og 73 stúlkum. Meðalaldur hópsins var 12,8 ár sem var marktækt lægri en aldur þeirra sem hlutu bráðaþjónustu sama ár (14,8 ár). Algengustu geðgreiningarnar voru athyglis- og ofvirkniraskanir (56,6%), kvíðaraskanir (44,7%) og lyndisraskanir (33,6%). Meðalbiðtíminn var 167,2 dagar og meðferðartími að meðaltali 771,4 dagar. Algengustu álagsþættirnir voru skilnaður foreldra (62,5%), geðtruflanir foreldris (44,1%) og einelti (32,2%). Meiri hluti einstaklinganna (71,7%) hlaut lyfjameðferð, en einstaklingar með átröskun voru marktækt sjaldnar (35,0%) á lyfjameðferð en aðrir. Algengustu meðferðaraðilar voru sálfræðingar (94,7%), læknar (85,5%) og félagsráðgjafar (57,2%). Flestir (73,0%) fóru heim eftir fyrstu komu en 22,4% voru lagðir inn á legudeild BUGL. Rúmur helmingur glímdi við samskiptaerfiðleika (57,2%) og námserfiðleika í skólanum (52,6%) og þriðjungur (32,2%) mætti mjög illa eða ekki í skólann. Þunglyndiseinkenni (71,1%), sjálfsvígstilraunir (19,2%) og sjálfsvígshugsanir (62,3%) voru marktækt algengari tilvísunarástæður í bráðaþjónustu en hegðunartruflanir (51,3%), samskiptatruflanir (51,3%), átröskunareinkenni (15,8%) og skólaneitun (15,1%) marktækt algengari tilvísunarástæður á almennri göngudeild. Helstu tilvísunaraðilar voru læknir á stofu (28,3%), bráðateymi BUGL (25,0%) og heilsugæsla (19,7%). Stór hluti einstaklinga á almennri göngudeild BUGL (50,7%) hafði sín fyrstu kynni af BUGL í gegnum bráðaþjónustu.
  Ályktanir: Niðurstöður þessarar rannsóknar varpa ljósi á muninn milli þeirra sem vísað er á almenna göngudeild og í bráðaþjónustu BUGL. Auk þess eru niðurstöðurnar gagnlegar faraldsfræðilegar upplýsingar fyrir starfsemi á BUGL og munu stuðla að því að þörfum þessara einstaklinga verði betur sinnt.

Accepted: 
 • May 15, 2017
URI: 
 • http://hdl.handle.net/1946/27599


Files in This Item:
Filename Size VisibilityDescriptionFormat 
Árný Jóhannesdóttir - Tilvísanir á göngudeild og í bráðaþjónustu BUGL.pdf2.8 MBLocked Until...2018/05/12HeildartextiPDF
Árný Jóhannesdóttir - Yfirlýsing.pdf8.62 MBLockedYfirlýsingPDF